15.11.1934
Neðri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í C-deild Alþingistíðinda. (4264)

115. mál, niðurlagning prestlaunasjóðs

Frsm. (Bergur Jónsson) [óyfirl.]:

Það er ekki nema eðlilegt, að hv. þm. Borgf., sem mun vera með elztu hreppstjórum þessa lands, beri hönd fyrir höfuð stéttarbræðra sinna, hreppstjóranna. En það er alveg misskilningur hjá honum, að það auki á störf hreppstjóranna, þó að sýslumönnum verði falin innheimta prestsgjaldanna, því að það mun venja, að þegar sóknarnefndirnar ná ekki inn þessum gjöldum, þá biðja þær um lögtak til þess að ná þeim inn, en lögtökin framkvæmir hreppstjóri eins og vitað er. Ber því þar að sama brunni, hvort sem sóknarnefndir eða sýslumenn eiga að innheimta gjöld þessi, þá verður það hreppstjóranna að innheimta þann hluta þeirra, sem ekki greiðist með góðu móti.

Þá var hv. þm. að tala um, að hreppstjórastéttin væri þjökuð stétt og illa launuð. Þetta er að nokkru leyti rétt, og mér hefir oft ofboðið, hve lítil laun þeir hafa fyrir störf sín. Væri ég því fús til þess að rétta hv. þm. Borgf. hjálparhönd til þess að reyna að bæta laun þeirra, ef hægt væri.

Þá minntist hv. þm. á það, að hreppstjórarnir fengju einu sinni ekki borguð burðargjöld, sem þeir yrðu að greiða undir bréf og skýrslur til sýslumannanna. Þetta þekki ég ekki. Í minni sýslu er það þannig, að þeir fá þennan kostnað greiddan af opinberu fé. Annars býst ég við, að hv. þm. muni lítið um það, sem hann kann að þurfa að greiða á þennan hátt, en eigi að síður er það óþarfi fyrir hann að gera það.