15.11.1934
Neðri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í C-deild Alþingistíðinda. (4267)

115. mál, niðurlagning prestlaunasjóðs

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Hv. frsm. þessa máls, þm. Barð., vildi snúa því upp í villu fyrir mér, að hér væri verið að leggja nokkurt aukið erfiði á hreppstjóra með samþykkt þessa frv., af því það væri svo með því fyrirkomulagi, sem nú væri, að hreppstjórar slyppu ekki við innheimtu þessara gjalda, því í flestum tilfellum, þegar þyrfti að taka lögtak, væru það hreppstjórarnir, sem það framkvæmdu. Það er rétt, að þegar þessi gjöld eru innheimt með lögtaki, eru það venjulega hreppstjórarnir, sem það gera, og fyrir það fá þeir nokkra greiðslu. En nú er það svo bæði með innheimtu sóknargjalda og manntalsþinggjalda, sem hreppstjórar hafa með höndum, að sóknarnefndir og hreppstjórar elta ólar við innheimtu þessara gjalda og spara hvorki ómak né fyrirhöfn til þess að ná þeim inn án þess að til lögtaks komi. Það er því ekki nema í sárafáum tilfellum, í sveitunum a. m. k., sem þessi gjöld eru innheimt með lögtaki. Með þessari breyt. á að veita hinni miklu fyrirhöfn, sem sóknarnefndirnar hafa fyrir því að innheimta þessi gjöld án lögtaks, yfir á hreppstjórana, sem ég ætla þó, að flestum komi saman um, að hafi fyrirfram svo mikil störf í þarfir hins opinbera, að lítt forsvaranlegt sé, þegar litið er á þeirra borgun.

Hv. þm. Barð. sagði út af því, sem ég minntist á, að dæmi mundu vera til, að hreppstjórar yrðu jafnvel að borga sjálfir burðargjald undir peningabréf, að það væri þá af framtaksleysi þessara hreppstjóra, því þeir gætu fengið þetta endurgreitt. Það getur vel verið, en ég hugsa, að í mörgum tilfellum muni það kosta svo mikið erfiði og fyrirhöfn, að betur borgaði sig að leggja til burðargjaldið.

Hv. 2. landsk., sem hér talaði út frá fullum skilningi á því, hverjir mundu mest verða fyrir barðinu á innheimtu þessara gjalda, sem sé hreppstjórarnir, minntist á það, að hér væri gengið inn á nýja braut, þannig að sýslumenn ættu að fá nokkra borgun fyrir þessa innheimtu, en það virtist ekki freista hans á nokkurn hátt. En það skyldi nú ekki vera, að einmitt þessi hlunnindi eigi einhvern þátt í þeim mikla áhuga, sem hv. þm. Barð. hefir fyrir þessu máli? Ég skal náttúrlega ekkert segja um það, en það er vitanlegt, að þessar 6% eru auknar tekjur sýslumanna fyrir erfiði, sem að mestu leyti verður velt yfir á hreppstjórana og þeir eiga ekkert að fá fyrir. Það er virðingarvert, að hv. þm. Barð. skuli lýsa því yfir, að hreppstjórarnir séu illa haldnir og að hann hafi frá því fyrsta að hann varð sýslumaður fundið til þess, en tilfinningin hefir aldrei orðið það sterk, að hann hafi nokkurn tíma gert tilraun til þess að rétta þeirra hag hér á þingi, og nú vill hann knýja fram frv., sem hefir í för með sér aukið erfiði fyrir hreppstjóra, án þess að sýna nokkra viðleitni til þess að bæta þeirra aðstöðu.

Ég vænti því, að það, sem við þrír höfum sagt, hv. 2. landsk., hv. þm. V.-Sk. og ég, verði nægileg bending til d. um að láta sitja við svo búið í þessum efnum og gera enga breyt., því eins og ég er búinn að taka fram, verður afleiðingin af þessu frv. aukið erfiði fyrir hreppstjórana, sem fá lítið fyrir sín störf, auk þess sem þetta léttir mjög litlu af sóknarnefndunum, því eins og hv. 2. landsk. tók fram, er þetta gjald ekki nema tiltölulega lítill hluti af því, sem sóknarnefndirnar verða að innheimta, því það er búið að hækka svo þann hluta gjaldsins, sem kemur til viðhalds kirkjum og öðru því, sem prestsþjónustu og sóknunum viðkemur.