16.10.1934
Neðri deild: 11. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í C-deild Alþingistíðinda. (4271)

20. mál, ríkisútgáfa skólabóka

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Frv. þetta er svipað frv. um sama efni, sem legið hefir fyrir undanförnum þingum. Samkv. því er ætlazt til, að bækur þær, sem löggiltar eru til kennslu í barnaskólum, séu framleiddar og seldar af ríkinu. Er það gert í þeim tilgangi, að bækurnar geti orðið sem ódýrastar. Að því miðar einnig ákvæði 5. gr., þar sem sú kvöð er lögð á skólastjóra barnaskólanna, að þeir sjái um útsölu námsbókanna hver í sínum skóla fyrir 10% þóknun.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. að svo stöddu, en legg til, að því verði vísað til menntmn. að lokinni umr.