15.11.1934
Neðri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í C-deild Alþingistíðinda. (4273)

115. mál, niðurlagning prestlaunasjóðs

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég átti nokkurn þátt í því, að samskonar frv. og þetta var borið fram á þingi í fyrra. Endurskoðendur landsreikningsins höfðu gert þá aths., að prestlaunasjóður ætti vegna reikningshalds ríkissjóðs að strikast út. En hvað er nú í raun og veru þessi prestlaunasjóður? Hann er ekkert nema á pappírnum. Það er aðeins einu sinni á ári, að þessi sjóður er skuldlaus; það er þegar ríkissjóður greiðir í hann það, sem á vantar til þess að hann geti staðið við sínar greiðslur. Reikningshald prestlaunasjóðs er afaróþægilegt að fella inn í ríkisbókhaldið, enda er það alveg ástæðulaust og að mörgu leyti til þess að gera landsreikninginn óaðgengilegri til yfirlits, þar sem ekki sést á honum, hvernig tekjum sjóðsins er varið.

Þá vil ég segja, að það sé einkennileg málafærslan hjá blessuðum sýslumönnunum hér í d. Þeir berja sér á brjóst og kvarta yfir því, hvað þeir hafi lítið fé með höndum og alltaf sé verið að auka á þeirra starf. En svo segja þeir annað veifið, að þetta komi allt á bak hreppstjórunum, og mátti heyra lýsinguna á því hjá hv. þm. Borgf., hvernig sýslumennirnir notuðu sér aðstöðu sína gagnvart hreppstjórunum. Þetta er nú ekki skemmtileg málafærsla, og það hjá sýslumönnum. Þá töluðu þeir líka mikið um það, hve mikill óþarfi það væri að taka þessa innheimtu af sóknarnefndunum, þar sem þær hvort sem væri innheimtu hjá sömu mönnunum. En gera ekki sýslumenn þetta sama? Það er þá ekki önnur fyrirhöfn fyrir þá en að skrifa einni línu meira. — En ég skal segja það fyrir mitt leyti, að fyrir mér er það ekkert aðalatriði, hverjir hafi þetta innheimtustarf með höndum, heldur bara álít ég þetta praktiskt og nauðsynlegt fyrirkomulag til þess að ríkisstj. fái góða aðstöðu til þess að fylgjast með því, hvernig þetta starf er rækt, og það er þægilegra að þurfa ekki að ganga að nema sýslumönnum um skil á þessu. Frá mínu sjónarmiði er þetta því fyrirkomulagsatriði, sem er nauðsynlegt, til þess að koma reikningshaldi ríkisins í sem bezt horf að þessu leyti, og til þess að hægt sé að hafa eftirlit með þessum greiðslum.

Það var einn af sýslumönnunum hér í d. að tala um, að skrifstofukostnaður þeirra væri nú fastákveðinn og engu hægt að þoka þar um. Ég veit ekki betur en að þetta hafi verið svona í mörg ár. Það hefir verið veitt ákveðin fjárhæð til sýslumanna í þessu skyni, og ef ríkisstj. hefir veitt þeim meira en það, sem þeirri upphæð nemur — og það hefir hún gert —, þá hefir hún gert það í algerðu heimildarleysi. Sýslumennirnir hafa þá bara narrað stj. til þess að láta sig hafa fé, sem hún hafði enga heimild til að velta. Þeir sýslumenn, sem hafa talað út í þetta mál hér, hafa ef til vill átt sinn þátt í því að fá eitthvað af fé, sem ekki hefir verið veitt samkv. heimild. Ég heyri það, að hv. þm. V.-Sk. er eitthvað að segja, og ég skal gjarnan snúa máli mínu til hans. Ég er ekki alveg fráleitur því, að hann megi bita í skorpuna á sneiðinni, sem ég var með.

Ég hygg, að það væri hægt að leiða menn til sátta og samkomulags um það, sem mér virðist vera aðalágreiningsefni hér, og það með þeirri brtt., sem fyrir liggur. A. m. k. nær hún þeim tilgangi, sem ég tel, að l. hafi átt að ná, sem sé, að sýslumönnum beri að vísu skylda til þess að standa skil á greiðslum þessum til ríkissjóðs, en að þeir geti snúið sér til sóknarnefnda, hver í sínu umdæmi, um innheimtu á gjöldunum. Ég held þessu fram af því að ég tel, að höfuðtilgangurinn eigi ekki að vera sá, að losa sóknarn. við þessa innheimtu. Mér finnst það smáatriði, og ég er alveg hissa á því, að menn skuli deila um slíkt. Það sýnir bara, hvað menn geta verið smámunasamir í sér, og það jafnvel þó að í sýslumannsstóli séu.

Þá vil ég, þó að það komi mér ekki beinlínis við, bera blak af hreppstjórunum, þar sem komið hafa fram ásakanir í þeirra garð fyrir trassaskap um að ganga ekki að mönnum með lögtaki strax og lögtaksbeiðni hefir borizt þeim í hendur. Þetta, að hreppstjórar veigra sér við þessu, stafar af því, að hreppstjórarnir skilja það svo vel, betur en þeir, sem ekki eru í sveitunum, hversu miklir örðugleikar geta verið á því fyrir fólk að standa skil á greiðslum, þó að litlar séu. Ég þekki marga hreppstjóra, sem bíða með að innheimta þessi gjöld þar til þeir vita, að menn hafa aura handa á milli til þess að greiða þau með. Og bezt gengur að innheimta þessi gjöld þar, sem þeir ganga á milli manna til þess að ná þeim inn, án þess að lögtak sé framkvæmt. Þetta er líka miklu betur séð, þó að hinsvegar sé ekki hægt að ásaka hreppstjóra, sem ganga hart að mönnum í þessu efni, og valda þá um leið óþarfa útgjöldum, sem ella væri hægt að komast hjá. Þetta á ekki aðeins við um smágjöldin, eins og t. d. prestsgjöldin, heldur öll þau gjöld, sem hreppstjórar verða að standa skil á, sem eru mest sveitarútsvör, a. m. k. í þeim hreppum, þar sem oddvitar hafa það fyrir reglu strax og gjalddagi er kominn að fá leyfi sýslumanna til lögtaka.

Ég vil leggja aðaláherzluna á það, frekar en allt annað, að með þessu frv. er verið að gera tilraun til þess að bæta skipulagið á reikningshaldi ríkissjóðs og greiða fyrir betra eftirliti með þeim tekjum, sem hér um ræðir. Þetta er vitanleget langstærsta atriðið. Og ég trúi ekki öðru, þó að ólíklega horfi með þessa till., en að það sé þá hægt að ná samkomulagi um það, hvernig hún eigi að vera.