15.11.1934
Neðri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í C-deild Alþingistíðinda. (4274)

115. mál, niðurlagning prestlaunasjóðs

Gísli Sveinsson [óyfirl.]:

Þetta mál hefir nú skýrzt töluvert, og má því stytta umr. um það. Mönnum er nú ljóst, hvernig stendur á því, að þetta frv. hefir komið fram og hvers vegna því er fylgt eins vel eftir og rann er á, og sömuleiðis er það ljóst, hvers vegna hv. þm. V.-Húnv. þurfti endilega að láta ljós sitt skína hér, sem ekki er þó sérlega skært.

Hv. 6. landsk. þm. greindi skilmerkilega frá ástæðunum til þess, að honum er þetta svo mikið kappsmál, og er skiljanlegt, að hann leggi ríka áherzlu á þetta mál. Hann hafði hér þá sögu að segja, sem við hv. 2. landsk. þm. verðum að játa, að við þekkjum alls ekki. Við þekkjum það ekki, að þau gjöld, sem sóknarnefndir eiga að innheimta, séu „í kássu og vitleysu“, eins og þetta virðist vera í hans sveit. Það er ósköp skiljanlegt, að þessir menn vilji bjarga sér úr þessari „kássu og vitleysu“. Í annan stað kom það fram hjá hv. þm. Barð., að það er einhver vottur af sömu kássunni hjá honum, þar sem hann var að tala um, að þetta væri allt í óreiðu, og svo ætti að demba þessu í hrúgum á hreppstjórana, og þeim væri þá kannske ætlað að gera það, sem þeir gætu alls ekki. Það er þetta, sem við þekkjum ekki, að innheimta þessara gjalda hjá sóknarnefndunum sé ekki í lagi. Það er langt frá, að það sé komið svo á Suðurlandi, eins og það virðist vera á Austurlandi, að þar séu öll gjöld, þau smærri jafnt sem þau stærri, í óreiðu og vitleysu. Stærstu gjöldin liggja ógreidd hrönnum saman, en að þessi smágjöld, sem eru kannske 1 króna eða minna, séu í svo mikilli óreiðu, að grípa þurfi til löggjafar til þess að bjarga því, það þekkjum við ekki. Hinsvegar virðist það nú tæplega gott ráð að demba þessu öllu á sýslumenn eða bæjarfógeta, því að þeim er nú ekki öllum borið svo gott vitni. Að vísu er það ekki svo, að þessir menn komist í gjaldþrot á öllum sviðum. Og þeir sýslumenn, sem hér eiga sæti í d., geta óhræddir talað um þessi mál, því að ekki mun neitt slíkt á ferðinni hjá þeim. Annars hafa sýslumenn allra manna mesta ábyrgð fyrir ríkissjóð, og stærstu upphæðir til innheimtu, sem víða reynist alveg ógerningur að ná inn á þessum tímum.

Það er víst um það, að þetta eru aukin störf á hreppstjóra, enda þótt það sé endilega, að öll störf sýslumanna lendi á hreppstjórum. En sýslumenn verða að senda til þeirra reikninga, til þess að gera síðustu gangskör að því að ná þeim inn, og er það meira en nóg, samanborið við þá þóknun, sem þeir fá.

Það lítur út fyrir, að hv. þm. V.-Húnv. hafi aldrei komizt í námunda við skrifstofur sýslumanna, því að hann heldur, að það eina, sem þeir geri, sé að stinga niður penna og skrifa nokkrar línur, og þar með sé hverju embættisverki lokið. Hv. þm. veit það ekki, að sýslumenn verða að vera daginn út og daginn inn á skrifstofum sínum, þar sem þeir hafa mjög mikla bókfærslu á hendi, fyrir hið opinbera, og svo þar að auki fyrir sýslufélögin, fyrir sama sem ekkert gjald, hvað lengi sem það verður.

Hv. þm. V.-Húnv. stóð hér upp til þess að lýsa því yfir, að hann, þessi mikli maður, endurskoðari landsreikningsins, hefði átt þátt í því að koma með frv. í öndverðu. En þar að auki talaði hann aðeins um það eitt, sem allir voru sammála um, sem sé, að rétt sé að taka þessi gjöld frá formsins hlið úr prestlaunasjóði, sem, þó að hann hafi verið til, stendur ekki undir því sem hann á að gera, og láta ríkissjóð taka við því. Þetta þurfti ekki að fjölyrða um, en það var bara hv. þm., sem þurfti að sýna, að hann væri pottur og panna í þessum málum. Um það atriði, að hann var að reyna að ná sér eitthvað niðri á flokksmanni sínum, er það að segja, að þeir eru nú ekki of margir hér í d. til þess að rífast. Hann var að rétta að hv. 2. landsk. skorpu, vegna þess að hann hefði fengið ólöglegt fé úr ríkissjóði. Mín vegna getur hv. þm. V.-Húnv. látið þennan kollega minn eiga skorpuna einan, því að ég hefi aldrei farið fram á það, að mitt skrifstofufé yrði aukið um einn eyri frá því, sem ákveðið hefir verið.

Ég mun svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál. Það mun nú vera orðið öllum ljóst. Þm. verða nú að gera það upp við sjálfa sig og samvizku sína, hvort þeir vilja fylgja því. Okkur, sem höfum kunnugleika og þekkingu á þessu máli, er ýmislegt það ljóst í þessu efni, sem hv. flm. þess og nm. hefir engan veginn verið ljóst, þó að þeim samkv. stöðu sinni hefði átt að vera það ljóst.