15.11.1934
Neðri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í C-deild Alþingistíðinda. (4275)

115. mál, niðurlagning prestlaunasjóðs

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég ætla nú, að það sé ljóst af þeim umr., sem hér hafa farið fram, að gangur þessa máls er þannig, að ef frv. verður samþ., þá á að vísu að létta þessum störfum af sóknarnefndarmönnum, og sýslumenn eiga að taka að sér að innheimta þessi gjöld og fá fyrir það 6% að nafninu til, en hreppstjórar eiga ekkert að fá. Svo bæta flm. frv. því við, að innheimtuna eigi að fela hreppstjórum, sem hv. 6. landsk. segir, að séu þannig, að þeir trassi allt og geri ekkert, sem þeir eiga að gera í þessum efnum. Það á að bæta innheimtuna með því að fela þeim þetta! Ég held, að ég þurfi svo ekki að hafa fleiri orð um það, sem hv. þm. Barð. hefir fært fram í málinu, en ég vil aðeins, út af því, að hv. þm. V.-Húnv. var að segja, að prestlaunasjóður væri ekki til, segja það, að mér þykir það undarlegt, að hv. þm. skuli halda því fram, því að hann hefir verið endurskoðari sjóðsins síðan l. um hann voru samþ. Hann er sem sagt búinn að endurskoða þann sjóð í mörg ár, sem hann segir að sé ekki til.

Ég vil þá aðeins segja nokkur orð út af því, sem hv. 6. landsk. sagði um þetta, og þeim rökstuðningi, sem hann færði fram fyrir því, að þetta mundi verka nokkuð á þann hátt, að hægt væri að halda betur við kirkjum og kirkjugörðum en áður, en það hvílir nú á sóknarnefndum að sjá um þetta. Hann rökfærði þessa skoðun sína með því, að það væri svo mikið af gjöldum, sem ekki næðist inn þrátt fyrir margendurtekið lögtak, svo að það yrði að taka af þeim hluta sóknargjalda, sem ætti að renna til kirkna, til þess að fullnægja prestlaunasjóði í þessu efni. Hvers vegna fara nefndirnar svo að? Ef þær geta sannað það, að þrátt fyrir lögtaksgerð sé ekki hægt að innheimta gjaldið, þá eru þær lausar frá skyldunni til þess að innheimta það. Það er vitanlega eins með þetta gjald eins og önnur þinggjöld, sem á að innheimta. Ef sýslumaður getur sannað ríkissjóði það, að ómögulegt sé að krefja inn gjaldið með lögtaki, þá er það afskrifað. Það er þess vegna hægt að bæta úr því, sem hv. 6. landsk. var að tala um í sambandi við viðhald kirkna og kirkjugarða, með því að sóknarnefndirnar sanni bara, að gjaldið hafi verið óinnkræft. Ef þetta er gert, þá þarf ekki að skerða möguleika sóknarnefndanna til þess að halda við kirkjum og kirkjugörðum. Það þarf þess vegna enga lagabreyt. um þetta efni, heldur aðeins, að sóknarnefndirnar séu ekki að borga í ríkissjóð þau gjöld, sem ómögulegt er að ná inn. Það er þess vegna ekki nokkur fótur undir þessu frv., og ekki nokkur minnsta ástæða til fyrir því. Það er með því skapað ennþá meira ranglæti í innheimtunni en verið hefir, auk þess sem með þessu á að fyrirbyggja það, sem hefði verið hægt að fyrirbyggja einungis með því að framkvæma þetta eins og l. standa til. Þetta frv., ef að 1. verður, er þá ekki til nokkurs hlutar annars en að auka áníðslu á hreppstjórum í þessu landi.