15.11.1934
Neðri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í C-deild Alþingistíðinda. (4278)

115. mál, niðurlagning prestlaunasjóðs

Jónas Guðmundsson:

Það lítur út fyrir, að þetta mál ætli að verða til þess að sprengja Bændafl. alveg. Það vissu flestir, að taugin milli skipanna mundi ekki vera sterk, en að hún væri svo fúin, að hún brysti við þetta átak, það hefir víst fæstum dottið í hug.

Það hafa komið fram nokkur atriði frá því að ég talaði síðast, sem ég vildi minnast á. Hv. þm. V.-Húnv. vildi ekki gera mikið úr því, þó að það aðalatriði frv. fengi að halda sér, sem sé, að sýslumenn ættu að gera skil til ríkissjóðs í staðinn fyrir að það nú er biskup. Ég ætla, að embættisfærsla biskups sé ekki lakari en hún er hjá sýslumönnum, og skil á hans fjárreiðum til hins opinbera ekki verri en hjá sýslumönnum og bæjarfógetum. Frá því sjónarmiði er það því enginn ávinningur fyrir ríkissjóð, að till. hv. þm. V.-Húnv. verði samþ., eins og hann vildi vera láta. Ég álít, að þá till. eigi að fella, og það af þeim ástæðum, sem ég hefi margtekið fram, sem sé, af því að þetta gjald er einn tekjuliður ríkissjóðs og eitt af þeim gjöldum, sem almenningur á að greiða beint í ríkissjóð gegnum sýslumennina, en ekki með þeim krókaleiðum að láta sérstakar nefndir innheimta það, nefndir, sem alltaf eru að skipta um menn, en þar af leiðandi kemur ringulreið á störf þeirra.

Hv. þm. V.-Sk. vildi halda því fram, að það þekktist ekki óreiða á þessum hlutum í Skaftafellssýslu og Árnessýslu. Mig furðar stórkostlega á þeirri tvöfeldni, sem lýsir sér í þessari yfirlýsingu. Heldur þessi þm., að það sé ekki óreiða á innheimtu þar eins og hér í Reykjavík og alstaðar annarsstaðar á landinu? Dettur honum í hug, að öll sóknargjöld í V.-Skaftafellsýslu náist inn? Árnessýslu þarf ekki að tala um. Þar eru heilir hreppar, eins og t. d. Eyrarbakki, sem eiga erfitt með að standa skil á fjöldamörgum gjöldum og greiðslum. Ég verð að segja það, að ég álít, að önnur eins tvöfeldni í framsetningu og þetta eigi ekki rétt á sér hér á Alþ., þar sem menn eiga helzt að ræða málin á þeim grundvelli, sem liggur alveg augljós fyrir, og sá grundvöllur er í þessu tilfelli, eins og hefir verið margendurtekið, að innheimta þessara gjalda er í ákaflega mikilli óreiðu víðsvegar um landið.

Hv. þm. Borgf. vildi líta svo á, að hann hefði kveðið niður öll mótmæli, sem fram hefðu komið gegn hans skoðun í þessu efni, með því að segja, að sóknarnefndirnar væru leystar frá því að borga þessi gjöld, þó óinnheimt væru, með því að færa sönnur á það, að þau væru alveg óinnheimtanleg. Þetta eru smágjöld og nær því óframkvæmanlegt fyrir sóknarnefndir að innheimta þau með lögtaki, þegar undandráttur verður á greiðslu, og auk þess skeyta hreppstjórar og sýslumenn lítt um innheimtu þeirra, þar sem þeim sjálfum ber ekki að standa skil á þeim í ríkissjóð. Það er af þessum ástæðum ómögulegt að sanna, að lögtak hafi reynzt árangurslaust, og á meðan má með réttu krefja sóknarnefndirnar um gjaldið. Rétta leiðin er áreiðanlega sú, að þau renni beint í ríkissjóðinn og séu innheimt af sýslum., og vænti ég því, að hv. deild greiði atkv. á móti brtt., en samþ. frv.