24.11.1934
Neðri deild: 45. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í C-deild Alþingistíðinda. (4314)

20. mál, ríkisútgáfa skólabóka

Gunnar Thoroddsen:

Frv. það, sem hér liggur fyrir, fjallar um ríkisútgáfu skólabóka. Eins og hv. þdm. er kunnugt, liggja fyrir þessu þingi mörg frv. um einkasölu ríkisins á ýmsum vörutegundum. Flest eru þessi frv. flutt í þeim tilgangi að auka tekjur ríkisins, vegna fjárhagsörðugleika ríkissjóðs. En það er allt öðru máli að gegna um þetta einkasölufrv. Það er ekki flutt í tekjuöflunartilgangi fyrir ríkissjóð, heldur þvert á móti, þar sem það fer fram á fjárframlög úr ríkissjóði. Samkv. 6. gr. frv. á ríkissjóður að leggja fram 8000 kr. á ári í 6 ár, eða samtals 48000 kr. Þetta fé er ætlazt til, að ríkið leggi fram án þess að fá vexti, og ennfremur er ætlazt til, að það láni fyrirtækinu fé, ef þörf þykir, gegn 6% vöxtum.

Ástæðan fyrir flutningi þessa frv. mun vera sú, að með ríkisútgáfu skólabóka megi gera þær ódýrari en þær nú eru. Ég vil taka það fram, að sá tilgangur, að gera tilraun til þess að koma því til vegur, að skólabörn fái ódýrari bækur, er vitanlega góður, og sjálfsagt að hlynna að honum. Skólabækur, bæði hvað snertir barnaskóla og æðri skóla, eru dýrari en ef til vill væri þörf á og það er engum vafa bundið, að hægt væri að gera ráðstafanir til þess að lækka verð þeirra. Það er líka öllum ljóst, að skólabækur eru mikill kostnaðarbaggi fyrir skólabörn og foreldra þeirra. En ég vil benda á, að ég tel vera fleiri leiðir færar til þess að draga úr óþarflega háu verði skólabóka en ríkisútgáfuleiðina. Það má t. d. benda á það, sem getið er um í nál. minni hl., að hlutazt verði til um, að fræðslumálastj. setji hámarksverð á skólabækurnar, án þess að útgáfurétturinn sé tekinn af mönnum.

Um ríkisútgáfu skólabóka er það að segja, að í kjölfar hennar siglir ýmiskonar kostnaður. Í nál. minni hl., sem er skipaður hv. 5. þm. Reykv. og mér, er farið út í kostnaðarhlið þessa máls, og þykjumst við hafa sýnt þar fram á með tölum, að kostnaðurinn við útgáfu skólabóka verður ekki færður eins mikið niður með ríkisútgáfu og látið er í veðri vaka. Annars er óþarft að fara frekar út í þessa hlið málsins, því að hv. frsm. minni hl. hefir gert það með sinni nákvæmu ræðu. En það er fleira, sem snertir þessa ríkisútgáfu heldur en kostnaðarhliðin ein.

Hv. 9. landsk. minntist á það í ræðu, sem hann hélt í gær, að það væri mikill kostur við ríkisútgáfu skólabóka, að með því fyrirkomulagi væri hægara að koma fram nýjungum í skólamálum og gefa út kennslubækur, sem mótaðar væru nýjum stefnum í þessum málum. Þessi skoðun á ekki við nein rök að styðjast. Ef ríkið tekur einkarétt á útgáfu þessara bóka og sölu þeirra í sínar hendur, og það gæfi út stórt upplag af hverri bók, eins og til mun vera ætlazt, þá er hætt við, að tregða yrði hjá ríkisforlaginu um útgáfu nýrra bóka með nýjum stefnum, meðan eitthvað væri óselt af upplagi gömlu bókanna. En þegar útgáfa bókanna er frjáls, er hægt að fá annan útgefanda til þess að gefa út nýjar bækur. Þessi röksemdafærsla hv. 9. landsk. er því á skökkum grundvelli reist. Nýjum kennsluaðferðum er miklu auðveldara að koma í framkvæmd með frjálsu fyrirkomulagi heldur en með einkarétti á þessari útgáfu.

Nú mun ég fara fáeinum orðum um hina leiðina, sem við minni hl. höfum bent á, sem sé þá, að fræðslumálastjórnin hlutist til um, að sett verði hámarksverð á skólabækur.

Í lögum nr. 19 1928, um fræðslumálanefndir, er gert ráð fyrir, að stofnuð sé fræðslumálanefnd fyrir barnaskóla. Um hlutverk hennar segir svo í 2. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Fræðslumálanefnd barnaskólanna gerir till. til ráðuneytisins um námsskrár fyrir barnafræðslu landsins, löggildingu kennslubóka, tilhögun prófa og um hámark og lágmark kennslustundafjölda fyrir hvert barn á dag ....“

Þessi nefnd ætti að geta ákveðið hámarksverð á skólabókum í sambandi við löggildingu þeirra, með því að gera það að skilyrði fyrir löggilding unni, að þær verði ekki seldar hærra verði en hún telur hæfilegt.

Í 7. gr. þessa frv. er heimilað að taka í hendur ríkisins útgáfu og sölu kennslubóka í hærri skólum en barnaskólum. Í fyrrgreindum lögum frá 1928, 3. gr., er einnig gert ráð fyrir fræðslunefnd fyrir ungmennaskólana með sama hlutverki og fræðslunefnd barnaskólanna, og gæti hún þá ráðið verði þeirra bóka, sem kenndar eru í ungmennaskólunum.

Í samræmi við skoðun okkar minnihl.manna, að þessum sama tilgangi megi ná með því að setja hámarksverð á skólabækur, höfum við borið fram rökst. dagskrá, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í trausti þess, að stjórn fræðslumálanna hlutist til um það, að skólabækur séu seldar við svo vægu verði sem unnt er, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég skal taka það fram, að þessi dagskrá er ekki borin fram í þeim tilgangi að spilla fyrir tilgangi þeim, sem þetta frv. byggist á, að lækka verð skólabóka. Við teljum þessa leið aðeins heppilegri. Verði þessi rökst. dagskrá samþ., þá mun minni hl. bera fram frekari lagabreyt. um, að fræðslumálastjórninni sé heimilað að setja hámarksverð á skólabækur, ef menn telja, að til þess þurfi frekari fyrirmæli en ná eru í lögum. Hjá okkur er jafnmikill áhugi fyrir því, að skólabækur séu seldar með sanngjörnu verði, þótt við teljum aðra leið heppilegri þessu máli til farsællar úrlausnar en þá, sem felst í þessu frumvarpi.