10.11.1934
Neðri deild: 33. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í C-deild Alþingistíðinda. (4324)

116. mál, verslunarskuldir

Flm. (Gísli Sveinsson) [óyfirl.]:

Það er orð og að sönnu, að þetta mál er ekki nýtt og hefir ekki átt gott með að komast áfram hér í þinginu. Þetta mál er þó ekki í mörgum greinum, en verður að teljast aðkallandi eins og nú standa sakir. Frv. var flutt á aukaþingi í fyrra og komst til n. hér í Nd., en ekki varð úr framkvæmdum á afgreiðslu málsins í n. Eins og ég tek fram í grg., er þetta sérstaklega aðkallandi mál nú, vegna þeirra aðgerða, sem gerðar voru í fyrra, og snerta mikinn hluta landsfólksins. Ég á við þær kreppuráðstafanir, sem nú er verið að gera til hjálpar bændunum. Margir bændur hafa nú fengið kreppulán og þeirra skuldir hafa með því að nokkru leyti komizt á réttan kjöl og að nokkru leyti ekki. A. m. k. er það svo, að menn hafa fengið eftirgjafir af mörgum skuldum, sem lán hafa fengizt í kreppulánasjóði til greiðslu á, og ættu þeir menn að vera betur settir en áður. En nú ná ekki þessar eftirgjafir nema til þeirra, sem sótt hafa um kreppulán. Hitt er auðvitað eftir að gera, sem komið hefir til orða, og að nokkru leyti til framkvæmda á Alþ., að lagfæra ágalla á kreppulöggjöfinni, þar sem niðurfelling skulda nær nú sem stendur ekki nema til þeirra einna, sem fengið hafa þessi lán. Þó er sú löggjöf skapleg að því er ábyrgðir snertir. Nú mun vera í Ed. frv. um breyt. á kreppulánalöggjöfinni, sem miðar að því, að létta ábyrgðum af mönnum. Er þetta frv. beint áframhald af þeim ráðstöfunum, sem þegar eru til í kreppulöggjöfinni um niðurfellingu ábyrgða.

Það er alveg ógerningur að hugsa sér framhald á því ástandi, sem verið hefir undanfarið, því ástandi, að menn geti safnað verzlunarskuldum alveg botnlaust, án þess að löggjöfin skipti sér nokkuð af því. Frv., sem hér liggur nú fyrir, hljóðar um fyrning verzlunarskulda. Það er til löggjöf um það, að verzlunarskuldir, sem ekki er samið um skriflega, fyrnast á 4 árum. Það er allt of langur tími, ef með slíkri löggjöf á að reisa rönd við skuldum, sérstaklega verzlunarskuldum, eða m. ö. o. búðaskuldum. Þess vegna var sporið stigið hér í d. í fyrra, þegar um þetta mál var rætt, að menn hugsuðu sér að hafa þetta tímatakmark eitt ár.

Almenningur er mjög hlynntur þessu máli. Bændafundurinn, sem haldinn var hér síðastl. vetur, var málinu hlynntur, en fundinum þótti þó þetta eins árs tímatakmark of stutt og vildi því fallast á að hafa það 2 ár. Þessa breyt. höfum við flm. gert á frv. og lítilsháttar aðrar. En við teljum, að þó að frv. um þetta væri ekki samþ. í fyrra, þá megi ekki undan dragast að gera það nú, ef vel á að vera.

Annað atriði frv. er um að banna að reikna vexti af verzlunarskuldum, og er það í samræmi við það, sem ákveðið var í frv. í fyrra. Þessi skoðun er þegar farin að ryðja sér til rúms hjá kaupmönnum. Reynslan hefir verið sú um þessu vaxtatöku, að aðilar, þ. e. þeir, sem skuldað hafa í verzlun, hafa þótzt una betur við að láta skuldir standa, þegar reiknaðir hafa verið af þeim vextir. Vextirnir hafa því verkað öfugt við það, sem þeim var ætlað að gera. Kaupmenn höfðu hugsað sér, að skuldunautar borguðu meira af skuldum sínum og fyrr með því, að reiknaðir væru af þeim vextir. Útkoman síðustu árin hefir í mjög mörgum tilfellum orðið sú, að skuldunautur hefir ekki borgað vextina af verzlunarskuld sinni, hvað þá að hann hafi borgað nokkuð af skuldinni. Kaupmenn og skuldunautar þeirra hafa, sem sagt, verið rólegri með að reikna vexti af skuldunum, þó að í sumum tilfellum sé raunverulega lítil von um fullnaðargreiðslur á þeim sömu skuldum. Þetta fyrirkomulag allt er sú svikamylla, sem hið allra skjótasta þarf að setja slagbrand fyrir.

Það er vitanlegt, að gegn þessu ákvæði frv. hafa komið fram nokkur andmæli. En þau munu, eftir því sem ýmsir hv. þm. og aðrir hafa tjáð mér, vera næsta veigalítil. Þessi andmæli hníga sérstaklega að því, að þó að viðurkennt sé réttmæti stefnu þessarar, þá sé ókleift að hafa þessi ákvæði svo, að ekki sé hægt að fara í kringum þau. Það er rétt, að ekki er hægt að hafa þessi ákvæði svo, að með samkomulagi sé ekki hægt að fara í kringum þau. En það mundi kveða heldur lítið að því. Það hefir verið tekið svo til orða, að með því að nota víxla væri hægt að komast í kringum þau. En það er ekki rétt. Eins og 1. gr. frv. er orðuð, þá mundi það ákvæði gilda um alla skuldasamninga, sem gerðir væru á milli kaupmanna og viðskiptamanna, eins þó um víxla væri að ræða. Aðeins gætu slíkar undantekningar komið til greina, ef svona víxill væri seldur eða keyptur í banka eða sparisjóði. En þó að þessar stofnanir keyptu einstaka þess háttar víxla, þá mundi ég ekki telja það neina goðgá. Ef bankar og sparisjóðir færu að kaupa þessa víxla, þá teldi ég viðskiptin bara komin á heilbrigðan grundvöll. Ég tel engar líkur til þess, að úti um öll héruð landsins geti tíðkazt, að bankar eða sparisjóðir kaupi að nokkru ráði verzlunarskuldavíxla, þar sem telja verður, að verzlanir þar séu misjafnlega stæðar. En segjum nú t. d., að lánsstofnanir yrðu fíknar í að kaupa verzlunarskuldavíxla, — ja, þá verðum við að viðurkenna, ef svo verður, að ástandið í þessum efnum er betra en almennt er álitið nú. Hætta í sambandi við þetta er því alls engin. Það má segja, að þessir víxlar geti komizt inn í banka, en mikið verður varla um það.

Það skal viðurkennt, að vitanlega má ganga enn nákvæmar frá þessu frv. heldur en þegar er gert, t. d. um það, hvernig eigi að fara með árlegar greiðslur manna í verzlanir, hvort þær eigi að taka sem greiðslur inn á eldri skuldir, eða upp í viðskiptaskuldir ársins, og eldri skuldir haldist því og haldi áfram að renna til fyrningartíma. Um þetta mætti setja nákvæm ákvæði í frv. En ég vænti, að þetta mál fái velviljaða meðferð hjá þeirri n., sem væntanlega fær það til athugunar, og vænti ég, að n. athugi einnig, hvort nauðsynlegt er að ákveða nákvæmar ýmsar aðrar gr. frv. en nú er gert.

Einnig gæti vel átt heima í þessari löggjöf — og ég mundi telja eðlilegt, að svo væri — , að ný gr. væri sett inn í frv. um að ákveða möguleika til fljótrar afgreiðslu almennra skuldamála fyrir dómstólum, svo að kaupmenn og verzlanir og þeir, sem eiga skuldir og þurfa að ná þeim áður en þær falla, geti það án mjög mikils tilkostnaðar. Það hefir þótt sá galli á því að láta þessi mál koma fyrir dómstóla, eins og t. d. gestarétt, að með þeirri meðferð hafi smáskuldir orðið svo dýrar, að það hafi ekki þótt borga sig að fitja upp á dómsmálum vegna þeirra.

Við flm. frv. erum fúsir til samvinnu við þá, sem sjá nauðsyn þessa máls og vilja koma því áfram. Góð afgreiðsla þessa máls hlýtur að verða til hagsbóta öllum, sem hlut eiga að verzlunarskuldamálum.

Þar sem þetta mál var kynnt hér allverulega á þingi í fyrra, og til þess að tefja ekki um of umr. um önnur mál, sem fyrir þessari hv. d. liggja, læt ég hér staðar numið með þeirri ósk, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til allshn.