08.12.1934
Neðri deild: 54. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í C-deild Alþingistíðinda. (4349)

20. mál, ríkisútgáfa skólabóka

Gunnar Thoroddsen:

Ummælum hæstv. forseta og ávítum vil ég svara með því að undirstrika það, sem hv. þm. Snæf. sagði, að vegna þess að þær bækur, sem ég ræddi um, eru gefnar út með ríkisstyrk og kenndar í skólum ríkisins, þá skipta þær nokkru máli, þegar rætt er um ríkisútgáfu á skólabókum. Í öðru lagi vil ég benda á það, að hv. frsm. meiri hl. gaf mér tilefni til þessarar ræðu, með því að bera brigður á það, að hlutdrægni hefði gætt í kennslubókum, sem nú eru notaðar í skólum landsins. Það er þess vegna óþarfi fyrir hæstv. forseta að taka þessa óskapa rögg á sig og víta mig. Ég hefi ekki misnotað ræðutíma minn hingað til.

Það er ekki rétt, að ég sé að ráðast persónulega að mönnum, sem eru fjarstaddir, þó að ég gagnrýni rit, sem eru kennd í opinberum skólum landsins. Því fer fjarri, að ég hafi verið að veitast að þeim tveim mönnum, sem hafa orðið svo ógæfusamir að vera höfundar að þessum bókum.