08.12.1934
Neðri deild: 54. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í C-deild Alþingistíðinda. (4350)

20. mál, ríkisútgáfa skólabóka

Forseti (JörB):

Ég vil benda hv. þm. á, að ég er ekki út af fyrir sig að finna að því, þó að hann geri kennslubækur að umtalsefni, en þá hefði hann átt að snúa sér fyrst og fremst til hæstv. kennslumálaráðh. með það, en þetta form, sem hann hefir við flutning þessa máls, er óviðeigandi. (GTh: Ég þarf engar leiðbeiningar um það frá hæstv. forseta). Ég held, að honum veitti samt ekki af leiðbeiningum, og hann ætti að taka þær til greina.

Annars held ég, að það græðist nú lítið á meiri umr. um þetta atriði. Mér fannst hv. 11. landsk. fullhörundssár, því að ég gerði ekki annað en góðfúslega að benda honum á, að það væri tæplega viðeigandi að gera þetta hér að umtalsefni.

Hann vildi segja, að hann hefði ekki ráðizt í garð þeirra manna, sem eru höfundar að þessum bókum. Ég skildi hann þó svo, að hann væri að ráðast á þeirra verk og fyndist þau óréttmæt, og það getur ekki talizt annað en árás á mennina. Hitt skal ég ekki gera að umtalsefni, hvort það var rétt eða rangt.