13.12.1934
Neðri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í C-deild Alþingistíðinda. (4361)

20. mál, ríkisútgáfa skólabóka

Sigurður Kristjánsson:

Það eru nú orðnir nokkrir dagar síðan ég kvaddi mér hljóðs til að tala um þetta mál, svo að ekki væri undarlegt, þó að ég væri farinn að ryðga í því, sem ég ætlaði að segja. En reynt mun að fægja af því ryðið. Mál þetta snertir mikið þann verkahring, sem ég hefi starfað í lengstan hluta æfi minnar, og er því ekki nema eðlilegt, að mig langi til þess að leggja orð í belg um það. Það mætti segja, að mál þetta sé svo langt komið hér í hv. d., að ég sé orðinn á seinni skipunum með aths. mínar. En þó á þetta, frv. eftir að fá úrslitaákvæðið um það, hvort það á að lifa eða deyja. Ég hefi í kennarastarfi mínu ekki komizt hjá því að rekast hvað eftir annað á mikla galla á kennslubókum þeim, sem fyrirskipaðar eru. Mig furðaði því stórum, þegar frv. þetta kom fram og átti ekki fyrst og fremst að bæta úr þeim ágöllum, sem allir kannast við, að eru á ýmsum algengum barnakennslubókum, heldur var það aðalatriðið, að ríkið tæki í sínar hendur útgáfu þessara bóka og ætti að sjá um prentun, bindingu og dreifingu bókanna. Ég hefi ekki orðið var við það, að vandi væri að fá menn til þess að gefa út skólabækur, eða að sérstakir örðugleikar hafi verið á dreifingu þeirra. Hitt er á allra vitorði, að mörgum þeim kennslubókum, sem notaðar eru í barna- og unglingaskólum, er ábótavant um efni og form. Þetta er ekki undarlegt, ef menn athuga það, að hinir og þessir hafa hlaupið til þess að semja kennslubækur, annaðhvort af því, að þeir hafi verið óánægðir með þær, sem fyrir voru, eða þá af hégómlegri löngun til þess að verða höfundur, — líka kunna menn að hafa álitið samningu slíkra bóka arðvænlega. Algengur galli á skólabókum er það, að höfundar þeirra hafa ekki kunnað að marka efninu rétt form. Í barnaskólunum eru t. d. í einni námsgrein kenndar bækur, sem fara algerlega andstæðar götur. Það er í náttúrufræði. Önnur þeirra er alveg miðuð við fræðilegu hliðina, og er mjög stutt. Hún á að vera nokkurskonar leiðbeining fyrir kennarann, sem með því móti verður að leggja mestan hluta fræðslunnar til frá eigin brjósti. Hin bókin er afarlöng, og hefir höfundur hennar sýnilega ekki gert sér ljóst, að lengd slíkra bóka verður að miðast við þann tíma, sem ætlaður er þeirri grein í barnaskólunum. Bókin verður því eins og ógurleg húð þanin yfir örlítið gat, bókin þarf miklu lengri tíma en til þessarar fræðigreinar er ætlaður í barnaskólum, og verður því ekki að fullu gagni. Hún er líka með allt öðru sniði. Þetta er sumpart skemmtilegar sögur um dýralíf og sumpart aumasta skvaldur. Þetta verður því miklu líkara lesbók en kennslubók, og alveg óhæf til notkunar í skólum, sem hafa mjög takmarkaðan tíma fyrir þessa fræðigrein. Það verður að vera á valdi þeirra, sem kennslumálunum stjórna, hvort á að halda þeirri stefnu að hafa bækurnar þurrar og fræðilegar, en kennarinn leggi svo til mest af efninu, eða þá lesbókarstefnuna, að hafa bækurnar til skemmtunar, en minna til staðgóðrar fræðslu. Slíkar bækur geta auðvitað ekki hjálpað nemendum til að standast fræðileg próf, en sennilegt er, að þeir fái með þessu móti nasasjón af ýmsu, sem við kemur fræðigreininni, og þá líklega fyrst og fremst því, sem æfintýralegt er og skemmtandi, en kannske þá miður áreiðanlegt. — Víst er um það, að margar þær skólabækur, svo nú eru notaðar, eru ekki sniðnar til fyrir þá skóla, sem eiga að nota þær. Ýmist eru þær of þurrar og stuttar, eða þá of langar og ófræðilegar, svo ekki er hægt að segja, að þær séu nothæfar. Auk þess er á mörgum skólabókum sá galli, að þar úir og grúir af villum. Það sýnir bezt, að það eru óvaldir menn, sem taka að sér að skrifa kennslubækur. Oft verður kennarinn að nota þessar bækur út úr neyð, af því að sæmilegar bækur eru ekki til. Það er hin mesta skapraun fyrir kennara að þurfa að fá nemendum sínum bók í hendur, sem hann veit, að þeir geta ekki lesið sér til gagns. Hitt er þó ennþá verra, að þurfa að fá nemendum sínum bók í hendur, þar sem manni er það ljóst, að höfundur hefir misskilið efnið í verulegum atriðum. — Það er meinlausara, því að nokkrar beinar villur séu í bókinni, því að þær má blátt áfram leiðrétta. Þá er það ekki skemmtilegt, að þurfa að segja nemanda, að kennslubók sú, sem hann eigi að læra, sé full af skekkjum. Slíkt er ekki vel til þess fallið að auka virðingu fyrir náminu, eða styðja þá trú hans, að kennarinn og höfundur kennslubókarinnar sé hátt yfir nemandann hafinn í þekkingu. — Annar tilfinnanlegur galli á þessu kennslubókamáli er sá, hvílíkur glundroði er á því, hvaða bækur eru notaðar; þar er oft skipt um ár frá ári. Ýmist veltur þetta á vali kennara eða fyrirskipunum frá æðri stöðum. Þetta getur orðið til þess að slíta námið bagalega í sundur, t. d. ef skipt er um bók á miðjum skólatímanum. Niðurskipun efnisins er gerólík hjá einstökum höfundum, svo með þessu móti verður að hlaupa yfir sumt, og annað vantar í. Fyrir utan þessi óþægindi er þetta líka tilfinnanlegt fjárhagsatriði fyrir marga fátæka foreldra. Ég skal taka það til dæmis, að fyrir nokkru átti barn á mínu heimili að fara að læra ensku. Ég spurði, hvaða bók ætti að nota, og það var Geirsbók. Ég átti þessu bók og ætlaði að fá barninu hana, en hún var keypt fyrir nokkrum árum, og nú þurfti að kaupa nýja útgáfu. Og þessi bók kostar 5 kr. Bókin má því heita sérlega ódýr. En það bætir ekki úr, þó farið sé að kenna fleiri bækur í sömu námsgrein, og bækurnar batna ekki við það eitt, að þær séu löggiltar; þær hafa sína galla eins og áður. En það þarf ákveðið að banna bækur, sem ekki eru hæfar til kennslu, og ekki löggildu aðrar eins bækur og bók þá, sem lesið var upp úr hér fyrir nokkrum dögum, sem á allan hátt er óhæf til kennslu. Og ég gæti lesið úr ýmsum fleiri bókum ýmislegt, sem er endileysa og óhæft til kennslu, þó ekki sé fyrir pólitíska hlutdrægni, og jafnvel ekki fyrir beinar villur, en mærðin í áður nefndri bók er óskapleg og hefir hlaupið með höf. í þær gönur, að fræðin lenda alveg út í hringiðu fyrir sjónum nemandans. Slík mælgi á alls ekki heima í skólabók. Ég hafði haldið, að ef hefjast ætti handa um að bæta skólabækurnar, þá kæmi fyrst og fremst fram till. um, hvernig þær yrðu bezt samræmdar kennslunni, að þær væru skrifaðar af hæfum mönnum og miðaðar við þann tíma, sem námsgreinunum er ætlaður, og tryggt, að bókin væri litlaus fræðibók til þess eins sniðin að veita nemandanum þekkingu og létta kennsluna. En slíkar ráðstafanir hafa ekki verið gerðar og eru ekki gerðar með þessu frv. Ég veit, að það, sem fyrir höf. frv. vakir, er að gera skólabækurnar ódýrari en þær nú eru. En það er óhætt að fullyrða, að það er ekki verð bókanna sjálfra, sem mestum kostnaði veldur heimilunum, heldur óregla í því, hvaða bækur eru keyptar, og að alltaf er verið að skipta um bækur. Þetta ætti að vera svo, að hægt væri að nota sömu bókina fyrir fleiri börn, þar sem hvert tæki við af öðru, þar sem mörg börn eru á heimili á ýmsum aldri. því það eru einmitt þessi sífelldu bókaskipti, sem er höfuðkostnaðurinn. Ég þekki af eigin reynd, að sá kostnaður er óhæfilegur fyrir barnmörg heimili.

Það getur verið, að einstöku bók yrði ódýrari, en sumar bækur eru nú svo ódýrar, eins og ég nefndi áður, að þær yrðu tæplega ódýrari, og sumar e. t. v. dýrari. En þetta yrðu a. m. k, aldrei nema smámunir hjá lækkuðum kostnaði, sem gæti verið við reglu á því, hvaða bækur eru notaðar. Það er ekki hægt að neita því, að svona hrein ríkisútgáfa á skólabókum er ekki hættulaus, og þarf að gera sér það ljóst í tíma, að þó það hafi e. t. v. vakað fyrir að gera bækurnar ódýrar, er þó hitt vafalaust aðaltilgangurinn, að koma þessu undir ríkið — ríkisprentsmiðjuna og bókbandið og opna leið fyrir tekjur til ríkisins.

Ég veit ekki til, að ríkisprentsmiðjan sé ódýrari á sinni vinnu en aðrir, og það er a. m. k. víst, að hún væri það ekki, ef hún væri ein og hefði ekki við aðra að keppa. Einokun er alstaðar óheppileg, en óvíða óheppilegri en við útgáfu bóka. Og mín skoðun er sú, að því fari fjarri, að bækurnar muni lækka í verði, en hinsvegar sé mikil hætta á, að skólabækurnar verði seldar óhæfilega háu verði. Það verður að viðurkennast, að hver ríkisstj. hefir mikla tilhneigingu til þess að græða á svona fyrirtæki, og hér kemur það ennfremur til greina, að sú ríkisstj., sem nú situr og ber málið fram, er alstaðar á þönum eftir tekjum í ríkissjóðinn, og mun það einmitt vera að koma fram hér, þar sem ríkisstj. þoldi ekki, að bókaútgáfan væri frjáls, af því hún býst við, að útgáfan gefi ríkinu tekjur, er það tekur hana í sínar hendur.

Hitt gæti komið til mála, að heppilegt væri að hafa eftirlit með þessu, og að athugað væri um, hver gæt í gefið ódýrast út, en þó með vönduðum frágangi, traustu bandi o. s. frv. Þó er ekki hægt að neita, að því fylgir alltaf nokkur hætta, að ríkið hafi óskorað einræði til þess að fara með þessi mál.

Það mál benda á, svo ómótmælanlegt sé, bók, sem gefin hefir verið út með ríkisstyrk, en er með greinilegum pólitískum lit. Og við höfum haft þá ríkisstj., sem gefur bendingu um, að þannig muni það verða, og ég er ekki svo bjartsýnn að gera ráð fyrir, að við getum ekki haft hana áfram. Hitt getur vel komið fyrir, að sjálfræði ríkisstj. til þess að ráða þeim málum verði svo mikið, að skólarnir verði gerðir að pólitískum stofnunum, enn meir en nú er, og er það gersamlega óhæfilegt og ætti að svipta þá skóla ríkisstyrk.

Það er vissulega ekki vandalaust að skipa þessum málum, og mér er ljóst, að þau þurfa aðgerða við, og líklega væri réttast að breyta löggildingarstarfseminni og fá hlutlausa n. manna til þess að ráða hvaða bækur væru kenndar. Fræðslumálastjóri og fræðslumálaráðh. veldu menn í n. og engin bók fengi löggildingu nema öll n. væri á einu máli. Þyrfti þá n. að kynna sér, að bækur væru sniðnar eftir tíma og þörfum skólanna og þroska barnanna. En n. ætti ekki aðeins að sjá um að löggilda bækurnar, heldur að sjá um samningu þeirra og rýma burt bókum, sem ekki eru hæfar eða eru gallaðar.

Ég held, að þetta mál þurfi grandgæfilegrar athugunar, svo tryggt sé, að ekki skapist andleg einokun í skólunum og nemendunum sé beint með hlutdrægni inn á pólitískar brautir, en skoðanir barnanna fái að þroskast eftir eigin vali.

Það nær engri átt, að við stofnun, sem allir borgarar, sem standa undir gjöldum þjóðfélagsins, styrkja, séu börnin leidd inn á brautir, sem eru gagnstæðar þeirra eigin skoðunum. Slíkar stofnanir verða að vera hlutlausar.

Þá þarf jafnframt bókaútgáfunni að ræða um, hvernig útsölunni verði hagað. Það má öllum vera kunnugt, sem um bókaútgáfu hugsa, að hér er svo lítill markaður fyrir bækur, að erfitt er að gefa þær út svo að þær verði almennings eign, því ekki er að ræða um sölu íslenzkra bóka nema hér innanlands. Við forlagið og útsöluna þarf bæði húsnæði og fast starfsfólk, og það verður því alltaf léttir að hafa til sölumeðferðar þær bækur, sem tryggt er, að mikið selst af, þó ekki væri á þeim beinn gróði, þá léttir það fyrir dreifingu annara bóka. Að kippa skólabókunum frá þeim, sem mundu gefa út aðrar bækur, gerir hið andlega fóður fólksins einhæfara, og þær bækur dýrari en þær yrðu annars — en skólabækurnar alls ekki ódýrari. Ég held, að þau sölulaun, sem gert er ráð fyrir, séu ekki nema fyrir kostnaði og fyrningu. Ég er ekki á móti því, að reynt sé að bæta úr þeim göllum, sem á skólabókunum eru, en ég held ekki, að það verði gert með þessum lögum, heldur með því að velja þar til forstöðu þá menn, sem hæfastir eru. Og ég er hissa, að sú þörf skyldi ekki koma fyrst upp í hug, þeirra manna, sem um þetta vildu bæta. Ég tel því bezt, að málið fengi að hvíla sig og yrði tekið upp á allt öðrum grundvelli. Ég er því á móti þessu frv.