13.12.1934
Neðri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í C-deild Alþingistíðinda. (4367)

20. mál, ríkisútgáfa skólabóka

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl]:

Ég hefi borið fram þessa brtt. vegna þess ákvæðis í 1. gr. frv., að ríkið sé skyldugt til þess að gefa út allar þær bækur, sem löggiltar eru til kennslu, en vil ekki láta þessa skyldu ná nema til venjulegra skólabóka. Till. verður því í raun og veru í því fólgin að draga úr 1. gr. og færa undir 7. gr.

Þá er hér komin fram brtt. á þskj. 735, frá hv. 9. landsk., og er hún nokkurnveginn shlj. till. á þskj. 673. Þó verð ég að taka brtt. 9. landsk. fram yfir, þar sem gert er ráð fyrir, að útgáfustj. hafi allar ráðstafanir að útgáfunni.

2. brtt. á þskj. 673, um að bjóða út prentun og band, tel ég óþarfa, þar sem ríkisprentsmiðjan mun geta unnið þetta með ódýrara móti en aðrir, og heppilegt að getu notað til þess dauðan tíma.

3. brtt. á sama þskj., um að greiða 5% hærri sölulaun, ef bækurnar eru greiddar við móttöku en ef þær eru látnar í umboðssölu, má gjarnan vera.

4. brtt. er ég mótfallinn. Tel ég rétt, eins og 7. gr. gerir ráð fyrir, að heimilt sé til þess að gefa út fleira en bækur, svo sem landabréf o. fl., sem þarf að sjá skólunum fyrir.

Þá er loks 5. og síðasta brtt. á þessu þskj., þar sem lagt er til, að útgáfustjórn skuli leita samkomulags við útgefanda um kaup á upplagsleifum, myndamótum o. fl., en ef samkomulag næst eigi um kaupverðið, skuli það ákveðið með mati 3 dómkvaddra manna. Þessi brtt. er ég mótfallinn, af því að í 8. gr. er örugg trygging fyrir því, að upplagið verði ekki gert ónýtt, og ég tel, að löggiltar kennslubækur eigi að láta gilda meðan eitthvað er eftir af upplaginu.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessar brtt., en ég get tekið undir ýmislegt af því, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði um skólabækur almennt, en ég tel vafalaust, að með því að láta ríkið gefa út þessar bækur, þá verði þær miklu betur úr garði gerður. Pólitíska hættu tel ég litla sem enga, og mér er sama, hvaða klíkubræður yrðu í þessari n., því að þeir starfa allir gagnvart öllum landslýð, og ég tel einmitt, að með ríkisútgáfu sé fengin meiri trygging fyrir því, að hvergi verði komizt nálægt pólitík, heldur en með því fyrirkomulagi, sem nú er. Þessi stórkostlega pólitíska hætta, sem hér er svo mikið talað um, er nú ekki meiri en það, að ég veit ekki til, að neinn hafi t. d. kvartað um pólitíska hlutdrægni í kennslubók Jónasar Jónssonar í Íslandssögu. Þeir mættu þó kannske halda, að þar væri reynt að koma pólitík að, en ég hefi aldrei heyrt um neitt af slíku tægi. Þetta er þá sú reynslan, sem við höfum, og ekki ætti hún að versna, því að þótt útgáfunefnd eigi að fá að ráða útgáfunni, þá er ekki breytt eldri ákvæðum um fræðslun., en hún er skipuð fræðslumálastjóra og kennaraskólastjóra og þar að auki fulltrúa frá kennarastéttinni, sem eru mjög eðlilegir aðilar í þessu sambandi.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um frv. að svo stöddu, m. a. vegna þess, að umr. hafa orðið óþarflega langar um frv., og ég dreg að sama skapi úr mínu máli og aðrir hafa talað um málið lengur en þörf val á.