10.11.1934
Neðri deild: 33. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í C-deild Alþingistíðinda. (4370)

117. mál, varnir gegn berklaveiki

Flm. (Gísli Sveinsson) [óyfirl.]:

Herra forseti! Ég býst við, að hv. þdm. muni renna grun i, að þessu máli muni verða fylgt hér á þingi af nokkuð mörgum mönnum, nema svo skyldi verða, að eitthvað það komi til, sem geri málið óþarft.

Hv. þdm. vita vel deili á þessu máli, því að hv. þm. utan úr héruðum landsins hafa mikið með þetta mál að gera vegna sinna héraða, sem öll eiga nú um sárt að binda út af þessu atriði. Berklavarnagjaldið er í raun og veru óvanalegt og nýstárlegt gjald hér á landi og víðar. Þetta gjald, sem lagt hefir verið á héruðin án þess að spyrja þau um það, til þess að standast kostnaðinn af berklavörnum, hefir að krónutölu verið tvöfalt á við íbúatölu héraðanna. Ég tel, að löggjöfin hafi þar farið inn á braut, sem, ef hún væri farin í öðrum fleiri málum, gæti riðið efnahag hinna einstöku héraða að fullu. Hér er ekki lítið spor stigið á þessari braut, þar sem þetta er hæsta gjaldið, sem öll héruð á landinu inna af höndum.

Nú gæti orðið deilt um það, hvernig eigi að fara með þessi gjöld. Um hitt verður ekki deilt, að þau eru langt um ofviða öllum sýslu- og bæjarfélögum landsins ofan á allar aðrar byrðar, sem þau hafa að bera samkv. l. og alltaf eru að aukast. Nú er berklavarnaskatturinn orðinn svo gífurlegur, að það atriði út af fyrir sig er talandi vottur um það, að taka verður einhverja nýja afstöðu til þessa máls.

Til þess að sýna, hvernig þetta mál horfir við nú, skal ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp nokkrar tölur um þennan kostnað á undanförnum árum. Allur kostnaður, greiddur úr ríkissjóði til berklavarna árin 1929 til 1933, var sem hér segir:

Árið 1929 .......................... 965202 kr.

— 1930 .... ...................... 817016 —

— 1931 .... ...................... 892235 -

— 1932 .... ...................... 1023507 —

— 1933 .... ...................... 1080559 —

Samtals öll árin 4778519 kr.

Þetta er gífurlegur kostnaður, og skal ég ekki gera tilraun til að dæma um árangurinn af honum. En nauðsynlegt er, að skýrslur fari að liggja fyrir um þetta, svo að almenningi verði ljóst, hvert stefnir.

Getur nú nokkur sagt um árangurinn af öllum þessum kostnaði? Borgar þetta sig fyrir einstök héruð og fyrir landið allt? Er þessi tilkostnaður og árangur hans sambærilegur við útgjaldaliði frá hinu opinbera vegna annara sjúkdóma og þess árangurs, sem sá kostnaður hefir gefið?

Nú skiptist þessi kostnaður misjafnlega á héruðin með tilliti til þess, hve margir berklasjúklingar úr hverju héraði njóta góðs af honum. Það má nú segja, að hér um ráði tilviljun nokkru. Það vill að vísu svo til, að á Suðurlandi, t. d. í Skaftafellssýslum, er færra um berklasjúklinga en víða annarsstaðar á landinu. Slíkur mismunur er athugandi, og það einnig, hvort ekki er rétt að gera meiri kröfur viðvíkjandi berklavörnum á einum stað heldur en öðrum.

Beint til ríkissjóðs hafa sýslur og bæir landsins greitt síðan árið 1929 svo tugum þús. skiptir. Til fróðleiks ætla ég um það að tilgreina nokkrar tölur. Í Árnessýslu er þetta gjald komið á sjötta tug þúsunda á þessum tilgreindu árum, eða frá 1929, að því ári meðtöldu. Í Reykjavík er það orðið um hálf millj. kr. þessi ár. Afleiðingin af þessum gífurlegu gjöldum hefir víða orðið sú, að héruðin hafa fyrir það, að þau hafa pínt sig til að greiða þau, orðið að draga mjög úr nauðsynlegum framkvæmdum hjá sér. Og nú fer óhjákvæmilega að reka að því, að héruðin, eitt eftir annað, fara um þessar greiðslur — sem ég tel að séu brot á meginreglum, að taka þetta gjald af héruðunum — að segja: Nei, hingað og ekki lengra. Sum héruðin hafa þegar gert þetta og hætt að standa í skilum með þessar greiðslur. Þessi héruð eru — án þess að ég ætli að kasta neinni rýrð á þau, hin héruðin koma á eftir — Neskaupstaður, sem á ógreitt þetta gjald frá árinu 1930 og allt síðan, samtals yfir 7½ þús. kr., og Hafnarfjörður, sem á ógreitt allt gjaldið frá 1930 og síðan, yfir 28 þús. kr. Hvorug Barðastrandarsýslan hefir greitt neitt af þessu gjaldi fyrir árið 1932 né neitt síðan. Snæfellsnes- og Hnappadalssýsla síðasta ár yfir 7 þús.; svo kemur þetta ár, þá er það 14— 15 þús. Borgarfjarðarsýsla hefir ekki greitt fyrir 1933 að öllu leyti, skuldaði fyrst fyrir allt árið, en hefir síðan greitt rúman helming. Þarf ekki að taka það fram, að hún hefir ekki getað greitt fyrir þetta ár, því að ekkert hérað hefir getað það að neinu leyti, en það, sem sýslurnar eiga að greiða eftir mannfjölda eins og hann er, það er rúm 1 millj. í öll þessi ár, en ef deilt er með 5 í þessa upphæð, þá verður það um 225 þús. á hverju ári.

Nú höfum við, sem flytjum þetta frv., talið nauðsynlegt, að eitthvað verði gert. Ef hægt væri að finna gjaldstofn héruðunum til handa til að standast þennan kostnað, þá væri þetta atriði út af fyrir sig læknað í bráð. En sú spurning hlýtur að vakna, hvort þetta gjald verði að vera svona, og hvort það sé ekki ókleift að standa framvegis undir svona gjöldum, hvað sem öllu öðru líður. En þegar ekki má svo búið standa, verður að gera einhverjar breyt. Við hefðum gjarnan viljað fella burt þetta gjald, en af því að löggjöfin er í sama farinu og áður, þá höfum við ekki séð okkur fært að leggja það til, heldur komum með þá till., að þetta gjald, sem áður var 2 kr., verði fært niður í 1 kr. Það er þó betri hálfur skaði en allur. Mannfjöldinn á Íslandi er 114 þús., svo að hér er um 114 þús. kr. að ræða.

Ég vænti, að þetta mál fái tilhlýðilega meðferð í þessari d. Ég vænti, að allir hv. þm. séu sammála um, að hér þarf skjótrar aðgerðar, og ég efast ekki um, að það fái góðar undirtektir hjá öllum þingheimi.

Ég legg til, að frv. verði vísað til allshn., því að þessi löggjöf hefir verið þar til meðferðar áður á þingum.