15.12.1934
Neðri deild: 60. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í C-deild Alþingistíðinda. (4374)

20. mál, ríkisútgáfa skólabóka

Frsm. minni hl. (Pétur Halldórsson) [óyfirl.]:

Herra forseti! Ég skal ekki vera mjög langorður í þetta sinn, en meiri hl. menntmn. hefir gert ýmsar aths. við brtt. frá minni hl. á þskj. 673, og langar mig til að fara um þær nokkrum orðum. — Hv. 9. landsk. lét svo um mælt, að ef þessar brtt. okkar minni hl. yrðu samþ., þá teldi hann frv. með því skemmt og verða lélega mynd af sínum upphaflega búningi og því, sem vera ætti.

Sagði hann sérstaklega í sambandi við 1. brtt. á þskj. 673, að það væri undarlegt, að ekki skyldi eiga að vera útgáfustjórn, eins og gert er ráð fyrir í frv. sjálfu, en í stað þess ætti fræðslumálastjóri samkv. brtt. að ákveða, hvenær þeim skilyrðum væri fullnægt, sem gera má við útgáfu skólabóka. Það er gert ráð fyrir því, að fræðslumálastjórinn ákveði, hvenær skilmálunum sé fullnægt hvað frágang snertir og annað verk. Mér sýnist, að það ætti að vera fullnægjandi fyrir alla, að þetta væri í höndum fræðslumálastjóra, því að hann er nú einu sinni sá maðurinn, sem af hálfu hins opinbera hefir aðalumsjón á þessu sviði og hvað þetta snertir, þá er það ekki svo ýkjavandasamt, að ástæða sé til að skipa stóra n. til að annast þetta. Hv. þm. ber fram brtt. á þskj. 735 um þetta atriði, og fer hún í þá átt, að ekki skuli skylt að láta útgefendur taka við útgáfu bóka, þótt fullnægt sé skilyrðum, og útgáfustjórnin skuli meta það. Mér finnst, að ef svo kynni að fara, að einhverjir bókaútgefendur vildu taka að sér skólabókaútgáfu og fullnægja þeim skilyrðum, sem útgáfustjórnin setur, þá eigi ekki að koma til þess, að útgáfustjórnin þurfi nokkurt starf að vinna á meðan svo er. Það er því óeðlilegt að skipa útgáfustjórn til þess eins að meta það, hvort bókaútgefendur fullnægi þessum skilyrðum. Hún er á meðan ekkert annað er hliðstæð stofnun við fræðslumálanefnd nú. Ég gæti fallizt á að fela þeirri n. þetta starf, en fræðslumálastj. hefir ágæta aðstöðu til þess að leita þá um þetta álits hæfustu manna í hverju einstöku tilfelli. En ég tel ekki taka því að deila mjög um þetta, því að það er fyrirkomulagsatriði, sem mér fyrir mitt leyti þykir ekki ástæða til að leggja mikið kapp á. — Um 2. brtt. segir hv. þm. svo, þar sem gert er ráð fyrir því, að útgáfustj. skuli leita tilboða og taka hagkvæmustu tilboði, þá sé óþarfi að binda þetta svo, þar sem höfuðstóllinn til þess úr ríkissjóði sé takmarkaður, og því sjálfskipað að sæta bezta boði. Þetta er mikilsverð yfirlýsing frá þeim manni, sem samið hefir frv. fyrir hönd ríkisstj. En þar sem þetta á svo að vera, þykir mér réttara, að það standi í frv. En um hitt, sem hann bar fram sem röksemd, að hvert fyrirtækið myndi undirbjóða annað, og því mætti ekki orða þetta svo í l., álít ég, að Alþ. eigi ekkert tillit að taka til þess, hvaða keppni þarna kann að myndast á milli. Það er fjarstæða, að Alþ. eigi að vera að útiloku samkeppni á milli bókaútgefenda á þessu sviði. Nú er brtt. svo rúmt orðuð, að jafnan skuli taka „hagkvæmasta“ tilboði, en það þarf ekki alltaf að vera lægsta tilboð, að útgáfustj. hefir nokkuð frjálsar hendur, og er þetta orðalag með vilja haft. — Um 3. brtt. þarf ég ekkert að segja, því að frsm. meiri hl., hv. form. menntmn., og þessi hv. þm. hafa fallizt á hana. — Út af 4. brtt. og þeim orðum hv. 9. landsk., að hún væri óþörf, að fella niður orðið „skólanauðsynjar“, því að það myndi ekki vaka fyrir aðstandendum málsins að sjá fyrir öðru en kennslubókum, þá sýnist mér, að orðið eigi tvímælalaust að falla burt, því að undir þetta má telja, að flestallir hlutir, sem notaðir eru í skólum, falli. Ef ekki á að taka einkasölu ríkisins á öllum þessum hlutum, þá á orðið að falla burt. Mér sýnist það vera úr annari átt, þessu máli óviðkomandi, sem hv. 9. landsk. minntist á, að ekkert safn af skólanauðsynjum væri til, og talaði um það í sambandi við kennslu í kennaraskólanum. En nú er ekki gert ráð fyrir því í þessu frv. að setja upp slíkt safn, og það sýnist því þarflaust þess vegna að hafa þetta ákvæði í l., því að það gæfi enga heimild til að setja á fót slíkt safn. Slíkt er kennaraskólanum ókleift, en með góðum vilja gæti ríkisvaldið komið því upp.

Um síðustu brtt. á þskj. 673 er nokkur meiningsmunur. Mér heyrðist á hv. 9. landsk. og eins á hv. frsm. meiri hl., að þeir teldu nógu vel frá þessu gengið í frv. Ég get ekki séð, að hægt sé að fara öðruvísi með þær birgðir, sem til verða í landinu þegur einkasalan skellur á, en farið var t. d. með tóbaksbirgðir þær, sem fyrirliggjandi voru hjá kaupmönnum, þegar tóbakseinkasalan var sett á laggirnar. Þá gátu allir þeir, sem áttu eitthvað af tóbaki fyrirliggjandi, selt einkasölunni það. Hv. þm. vildi halda því fram, að hér væri ekki um sambærilegar vörur að ræða, því að tóbakið hefði verið góð verzlunarvara, og á því líklega að skilja það svo, að bækurnar muni vera sérlega slæm verzlunarvara. En þetta tóbak, sem einkasalan keypti, þegar hún var sett á stofn, var ekki betri verzlunarvara en svo, að talsvert af þeim birgðum mun liggja óselt ennþá. Í frv. eru engin fyrirmæli um mat á þessum birgðum, aftur á móti er gert ráð fyrir því í brtt., að náist ekki samkomulag milli útgáfustjórnar og útgefanda um kaup á bókunum, skuli þrír óvilhallir menn meta verð þeirra og ákveða. Ég skil ekki, því menn þykjast hafa ástæðu til að vera á móti svona ákvæði, — ef birgðirnar væru einskis nýtar, mundu þessir dómkvöddu menn meta þær svo. En hitt verða allir að viðurkenna, að ekki er forsvaranlegt að grípa svona inn í einstaklingsrekstur án þess að bæta þeim mönnum að nokkru, sem verða fyrir tjóni vegna slíkra ráðstafana. Það er ekki sem bezt samræmi í því að segja í öðru orðinu, eins og hv. þm. gerði, að þessar bókabirgðir væru einskisverðar, og í hinu, að það mundi alveg bakbíta ríkisútgáfuna fjárhagslega, ef henni væri gert að skyldu að kaupa birgðirnar. En sé þetta síðara rétt, að svona mikið verðmæti liggi í þessum bókum, er líka alveg óhæfa að bæta ekki eigendunum þann skaða að fullu, sem þeir bíða við að mega ekki selja þær. Ég get ekki hugsað mér, að nokkrir hv. dm. geti tekið þetta sem gild rök gegn þeirri sjálfsögðu breytingu, sem í þessari brtt. felst.

Hv. frsm. meiri hl. var fyrir nokkrum dögum að tala hér í öðru máli, einkasölu á bílum, mótorum o. fl. Þar tók hann það mjög skýrt fram, að varlega yrði að fara í það, að taka þá verzlun af þeim, sem hefðu hana nú, án þess að fullar bætur kæmu fyrir það tjón, sem þeir hefðu af því að missa hana. En þessa saknaði ég úr ræðu hv. þm. um þessa einkasölu á skólabókum. Af þessu sést, hvað menn geta orðið blindaðir af því að vera sjálfir aðilar í málum, sem þeir eiga að dæma um. Hv. þm. hefir fundizt, að hann sem fræðslumálastjóri og form. menntmn. hefði hagsmuna að gæta í þessu máli, og því gleymir hann þessu mikla og sanngjarna atriði, sem hann einmitt undirstrikaði þegar um mál var að ræða, sem lá honum fjær. — Hann gekk samt ekki mjög á móti þessari síðustu brtt., og vona ég, að hann ljái henni atkv. sitt.

Að lokum vildi ég segja það, að ég er hræddur um, að þegar ríkið á að fara að gefa út allar kennslubækur, verði mjög um þær bækur deilt. Þetta kemur sjaldan fyrir nú, en þó eru það nokkrar kennslubækur, sem óánægja hefir risið út af vegna þess, að þær eru taldar litaðar af stjórnmálaskoðun höfundarins. Og ég er sannfærður um það, að þegar stjórnmálamenn eiga að ráða því algerlega, hvað börnum verður kennt hér á landi, þá hætta foreldrar að sjá í skólunum stofnanir, sem allir geti jafnt sent börn sín til. Á þessu hefir jafnvel borið nú þegar, en spá mín er sú, að þetta mundi blossa upp, ef stjórnmálamenn ættu að fara að verða einvaldir um það, hvað börn mættu læra. Og þetta fyrirkomulag er algerlega óhafandi, jafnvel þótt forstjórar þessa fyrirtækis væru valdir menn, sem dómbærir væru á fræðilega hlið námsefnisins. Ég efast ekki um, að þetta á eftir að verða stórkostlegt vandræðamál, bæði fyrir stjórnmálamennina, sem með þetta eiga að fara, og svo allan landslýðinn.