09.10.1934
Neðri deild: 5. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í C-deild Alþingistíðinda. (4390)

24. mál, fátækralög

Jakob Möller [óyfirl.]:

Einhverjum datt í hug, að hæstv. atvmrh. hefði misskrifað fyrirsögn þessa frv. og í ógáti ritað bráðabirgðabreyt., af því að hann hefði verið orðinn svo vanur að gefa út bráðabirgðalög. Ég held, að a. m. k. hafi allir gert ráð fyrir því, að þessi breyt. ætti að verða meira en til bráðabirgða og að aðalákvæðinu, sem sé að afnema sveitarflutning, yrði ekki breytt aftur. En litlu máli skiptir, hvað þetta er kallað. Ég ætla ekki að gera það að umræðuefni, heldur vekja athugun hv. þm. á því, að sú breyt., sem hér um ræðir, hefir fyrirsjáanlega þau áhrif, að auka að verulegum mun fátækraframfæri hinna einstöku framfærsluhéraða. Þetta ákvæð sveitarstjórnarlaganna, heimildin til flutnings, er mikill hemill á fátækraframfærið. Menn basla miklu meira áfram án þess að leita opinberrar aðstoðar vegna þessa ákvæðis: þess vegna er líka að athuga í þessu sambandi, hvernig ætti að sjá sveitarfél. fyrir möguleikum til þess að standast kostnaðinn, sem óhjákvæmilega mun vaxa að verulegu leyti við burtfellingu þessa ákvæðis. Nú er svo ástatt, að fjöldi sveitarfélaga á landinu hefir þegar gefizt upp, að heita má, undir ofurþunga þess kostnaðar, sem verður að inna af hendi til annara sveitarfélaga. Og það er verkefni, sem ekki má fresta miklu lengur, að finna ráð til að bæta úr því ástandi. Ég hygg óhjákvæmilegt, að ríkissjóður taki á einhvern hátt þátt í þeirri framfærslu í náinni framtíð, og hefði talið það meira til bóta, ef ákveðið hefðu verið í frv. um það, að þessi þriðjungur, sem lagður er á dvalarsveit, hefði verið lagður á ríkissjóð. Vænti ég, að n. athugi það gaumgæfilega, og taki einnig til athugunar, hvort ekki sé hægt að hlaupa undir bagga með sveitarfélögum í þessu efni.