09.10.1934
Neðri deild: 5. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í C-deild Alþingistíðinda. (4396)

24. mál, fátækralög

Bergur Jónsson [óyfirl.]:

Það er enginn vafi á því, að full nauðsyn er að gera breyt. á fátækral., og ég veit, að hæstv. atvmrh. mun samþ. þá skoðun mína. En ég get ekki séð, að með þá nauðsyn fyrir augum sé það nein meining að koma fram með jafneinskisverða kákbreytingu sem þetta frv. Ég get ekki séð, að með því sé eiginlega bætt nokkurn skapaðan hlut úr aðalgöllum fátækralaganna. Hæstv. ráðh. minntist á þröngan fjárhag sveitarfélaga. Hvar í frv. er gerð tilraun til þess að ráða bót á því böli? Ég skal ekki dæma um orsök þess, en ég veit, að það eru mjög mörg sveiturfélög á landinu, jafnvel fleiri en hæstv. ráðh. grunar, sem eru svo illa stödd fjárhagslega, að þau geta ekki staðið við skuldbindingar sínar, hvort sem það nú eru skyldur, sem lögin leggja þeim á herðar, eða aðrar. Ég get bent á eitt atriði, sem er áberandi orsök þess, að svona er komið, og það er ákvæðið um, að fæðingarsveit beri skyldu til að sjá um framfærslu þurfalinga, sem ekki hafa unnið sér sveitfesti annarsstaðar. Eftir því sem fækkar í sveitunum, fleiri fara burt og greiðslugetan þar af leiðandi minnkar, eftir því fjölgar þurfalingunum, sem dvelja annarsstaðar á landinu og njóta framfærslu í dýrari héruðum. Við þetta bognar greiðslugetan. Ég þekki vitanlega bezt til í þeirri sýslu, þar sem ég starfa. Þar eru tveir hreppar af ellefu, sem geta nokkurnveginn staðið straum af þeim framfærslukröfum, sem til þeirra eru gerðar. Hinir verða að leggja kröfurnar, sem þeim berast frá Reykjavík, Hafnarfirði og víðar að, til hliðar án þess að svara þeim. Þeir geta bara ekki borgað. Það er alveg sama, hvernig að er farið, hvað sem sýslumaðurinn vill vera strangur og hvað sem stjórnarráðið segir, þá geta þessi sveitarfélög ekki borgað. Þau eru orðin svo fámenn og fátæk, að það eru engir gjaldendur til að standa undir meiru en aðeins lögbundnu útgjöldunum heima fyrir.

Mér finnst það harla undarlegt, úr því farið er að gera breyt. á þessum l., að þar skuli aðeins eiga að verða um kák eitt að ræða. Með þessari breyt. er að engu leyti bætt úr þeim vandræðum, sem sum sveitarfélög eru komin í vegna mikils fátækraframfæris, og munu þau vera fleiri en margan grunar, sveitarfélögin, sem nú liggur við gjaldþroti af þessum ástæðum. Þess má líka minnast, að Alþingi hefir fyrir ekki löngu síðan fellt frv,. er fór fram á hjálp til sveitarfélaga þeirra, er harðast verða úti vegna fátækraframfæris. Tel ég ákvæði þetta einskis virði. Það, sem gera þarf, er að fella niður fæðingarákvæðið, og að dvalarsveit verði framfærslusveit. En eins og nú standa sakir eru sveitarþyngslin orðin það mikil, að telja má undir mörgum tilfellum tímaspursmál, hvenær þeir gjaldendur, sem einhvers eru megnugir, flýja undan álögunum. Lenda þeir þá tíðum í Rvík eða öðrum betri stöðum. Vænti ég þess, að jafnvel þm. Reykv. geti skilið áhrif slíkra ákvæða. Aftur á móti fæ ég ekki séð, að frv. atvmrh. sé til nokkurra bóta, eins og það liggur nú fyrir. Það er þýðingarlítið að þenja sig hér út og gaspra um, hvað fátækraflutningarnir séu óskaplegir, og leggja síðan fyrir þingið frv. í þessu efni, sem aðeins er kák eitt. Nær væri þá að stíga sporið heilt og gera landið að einu framfærsluhéraði, eins og hv. 3. þm. Reykv. minntist á. Honum virtist reyndar líka ógnar vel við fátækraflutningana, en þetta yrði þó til þess, að ekki þyrfti lengur að deila í þingsal um, hvort flytja skyldi fátækraflutningi eða ekki. Mín reynsla er sú, að ákvæðið um fátækraflutning sé einungis orðið pappírslög. Að vísu má nota þetta ákvæði sem pressu á einstöku menn, sem annars myndu leggja minna að sér til að forðast sveit. Við hv. 3. þm. Reykv. þurfum ekki að rífast um þetta að þessu sinni. Frv. fer væntanl. til n., og vonast ég til, að henni takist að gera eitthvað úr því í samráði við hæstv. atvmrh. En eins og ástandið er nú í mörgum sveitarfélögum, horfir til stórvandræða. Ég skal geta þess, að í þeirri sýslu, sem ég þekki bezt til, munu 9 af 11 hreppum nálgast það að vera gjaldþrota, og hvorki ég né hæstv. atvmrh. getum þar neinu ráðið, ef svo heldur áfram.