09.10.1934
Neðri deild: 5. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í C-deild Alþingistíðinda. (4398)

24. mál, fátækralög

Magnús Torfason:

Ég þarf ekki að svara hæstv. atvmrh. mörgu. Hann segir engu ástæðu til að víkja frá þessari till., taldi það ekki fært, en færði þó ekki fyrir því nein rök. Það vantaði líka rök öll hjá hv. 3. þm. Reykv., sem ég býst við, að hafi talað fyrir munn síns flokks. Þeirra hugsun virðist enn vera sú fyrst og fremst að ná til sín fólkinu, en reyna síðan sjálfir að sleppa sem allra bezt við byrðarnar, en hugsa minna um, þó öðrum sveitarfélögum blæði út. Sú mundi og verða raunin, ef þetta hlutfall verður látið haldast, sem frv. gerir ráð fyrir, sem sé, að framfærslusveit sé skyld að greiða 2/3, en dvalarsveit 1/3 framfærslukostnaðar.

Ég hélt, að ég væri eins kunnugur sveitamálum og hv. 3. þm. Reykv., og ég vil þá segja honum það, að að vísu koma ennþá fram kröfur um sveitarflutninga, en þeim er bara sjaldnast framfylgt, því viðkomandi fer þá oftast til læknis og fær vottorð um, að heilsan leyfi ekki slíkt, honum sé bráður bani búinn ef hreyft sé við honum, og þetta getur verið rétt, hann hafi fengið of mikinn hjartslátt eða þess háttar.

Ef ekki verður tekin til greina, till. um breytta hlutfallstölu, þá tel ég þetta frv. geta orðið hið mesta skaðræði. Ég verð að játa, að ég teldi æskilegast, að landið yrði eitt framfærsluhérað, en það mun nú eiga nokkuð langt í land, því útgjöld til fátækraframfæris mundu við það aukast að miklum mun, og er þó sízt á það bætandi.