09.10.1934
Neðri deild: 5. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í C-deild Alþingistíðinda. (4399)

24. mál, fátækralög

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég vil mótmæla því, sem hv. 3. þm. Reykv. ber hér fram, að hér sé verið að beita kaupstaðina brögðum með frv. þessu, þó farið sé fram á, að dvalarsveit sé framfærslusveit. Flutningur fólksins úr sveitinni í kaupstaðina er augljós og eðlilegur. Eftir skýrslum, sem liggja fyrir, er það mestmegnis unga fólkið, sem flyzt úr sveitunum; eftir eru börn og gamalmenni. Er það mjög að vonum, að fólkið leiti sér atvinnu þar, sem hennar er að vænta, alveg á sama hátt og hv. 3. þm. Reykv. hefir flutt til Rvíkur utan af landi í von um betri atvinnu. Þetta mistekst oft og einatt, og fólkið stendur uppi með tvær hendur tómar, og þá verða sveitirnar að taka við því aftur, þar sem það hefir ekki unnið sér inn sveitfesti annarsstaðar. Segjum, að barn hafi fæðzt í einni sveit, flytji síðan stað úr stað, vinni sér hvergi sveitfesti og lendi að lokum á fæðingarsveit sinni. Hvað er eðlilegt við þetta fyrirkomulag? Á það hefir verið bent af hv. 2. landsk., að ef landið yrði gert að einu framfærsluhéraði, mundi kostnaðurinn hækka gífurlega, og það er alveg gefinn hlutur, að svo verður. Ég verð að líta svo á, að þau bæjarfélög, sem tekið hafa við fólkinu úr sveitunum, beri í rauninni ábyrgð á því. Þess vegna tel ég, að framfærslusveit eigi ekki að borga meira en í mesta lagi 1/3 hluta framfærslukostnaðar. Ég verð að segja það, að ég sé því ekki, að hér sé um að ræða nein brögð eða sérstakan reipdrátt gagnvart bæjarfélögunum. Þó að hv. 3. þm. Reykv. berji í borðið og höfðinu í steininn, get ég ekki fallizt á, að hér sé um of gengið á hluta bæjanna. Hv. 3. þm. Reykv. hefir oft ferðazt um landið í endurskoðunar- og embættiserindum. Setjum nú svo, að hann í sínum ferðalögum eignaðist krakka í hverri höfn, þar sem hann kæmi, og gæti ekki séð fyrir þeim. Það gæti orðið dálaglegur útgjaldabaggi fyrir hlutaðeigandi sveitarfélög, að kosta uppeldi þeirra og verða síðan að sjá þeim fyrir fátækraframfæri.