03.10.1934
Sameinað þing: 2. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

Kosning til efrideildar

Ólafur Thors:

Í 48. gr. þingskapanna stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Þeir þingmenn, sem komið hafa sér saman um að kjósa allir sömu menn í sömu röð, afhenda forseta, þegar til kosninga kemur, lista yfir þá í þeirri röð“.

Þetta skilst mér vera skilyrði frá hendi þingskapanna fyrir því, að listi sé löglegur. Nú hefir hv. 2. þm. Reykv. borið fram lista með nafni Þorsteins Briems, en samt er því yfir lýst af forseta, að þessi hv. þm. standi að baki öðrum framkomnum lista, í því skilst mér að felist skv. þingsköpum (48. gr.), að hann hafi ekki rétt til þess að bera fram eða geti ekki borið fram löglega uppástungu um annan lista. Ég tel því tvímælalaust, að það sé rangur úrskurður hjá hæstv. forseta, þegar hann velur þennan lista úr og úrskurðar hann gildan, samtímis að úrskurðaður er ógildur listi frá Bændafl.-manni með nafni Bændaflokksmanns á. Þetta hlýtur hver maður að játa, að er rétt, og mér finnst forseti vera knúinn til þess, til að bjarga virðingu þingsins, að gefa mönnum kost á að leiðrétta með atkvæði sínu svo augljóst rangdæmi. Ef hann verður ekki við þessu, kemst hann ekki undan því, að álitið verði, að hann bresti hugrekki til þess að leggja þennan ranga úrskurð undir þingið, jafnvel þótt hans flokksmenn séu þar í meiri hluta. Ég endurtek þá áskorun til hæstv. forseta, að hann sóma þingsins vegna og sjálfs sín verði við tilmælum um, að úrskurður hans verði lagður undir atkv. þm.