09.10.1934
Neðri deild: 5. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í C-deild Alþingistíðinda. (4400)

24. mál, fátækralög

Jakob Möller:

Ég fæ ekki séð, hvers vegna hv. þm. V.-Húnv. talar um, að hér eigi að beita brögðum. Ég minntist aðeins á reipdrátt í fyrri ræðu minni, en reipdráttur á ekkert skylt við brögð, því hann er aðeins leikur eða áreynsla til að sýna aflsmun, en þessi hv. þm. og hv. 2. landsk. hafa gerzt hér talsmenn reipdráttarins, þrátt fyrir það þó þeim hafi ekki enn tekizt að toga svo dygði, sem stafar þá eflaust af því, að einhverjir aðrir hafa togað linlega.

Hv. þm. Barð. var að gera mér upp einhverja sérstaka ást á fátækraflutningnum, en ég vil benda á, að ég lít aðeins á fátækraflutning sem nauðvörn, sem geti þó verið aðhald á vissa menn. Það er fjarri því, að ég hafi nokkra ást á þeim; þeir geta líka verið hemill á þá stefnu, sem talsmenn reipdráttarins halda fram, að velta sem mestu yfir á kaupstaðina.