09.10.1934
Neðri deild: 5. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í C-deild Alþingistíðinda. (4408)

24. mál, fátækralög

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

[óyfirl.]: Ég á dálítið erfitt með að átta mig á þessari miklu sálarangist hv. þm. Barð. Eins og ég er margbúinn að benda honum á, þá hefir þessi litla breyt., sem ég flyt hér á fátækralögunum, engin áhrif á framfærslukostnað í landinu, enda hefir enginn bent á það með rökum. Að hér sé tekinn burt sá hemill, sem haldi gjöldum sveitarfélaganna niðri, eins og hv. 3. þm. Reykv. vildi halda fram, er því hin mesta fjarstæða, því að málið er alls ekki flutt þannig, að það snerti fjárhag sveitarfélaganna.

Þá hvarflaði hv. þm. Barð. dálítið frá þessu frv. og fór að tala um tryggingarmál og tryggingarlöggjöf og afstöðu mína til þeirra mála. Ég verð nú að segja, að svo hissa sem ég varð á því að heyra hann halda því fram, að frv. þetta væri flutt í sambandi við fjárhagsmál sveitanna, þeim mun meira varð ég þó hissa á öllum þeim vitleysum, sem hann kom með um mig í sambandi við þau mál. Hann sagði t. d., að ég hefði verið skipaður í einhverja þingnefnd 1925. Þetta er bara haugalygi, sem ég fæ ekki skilið, hvernig hefir komizt inn í höfuð hv. þm. Ég kom nfl. ekki inn í þingið fyrr en 1921 og gat því ekki hafa verið skipaður í þingnefnd fyrir þann tíma. Þá sagði hv. inn., að ég hefði ekki sem nm. í n. þessari borið fram neitt frv., heldur hefði ég nokkru síðar fengið að hanga sem meðflm. að frv. um tryggingar, sem jafnaðarmenn hefðu borið fram í þinginu, og það hefði verið kattarþvottur minn í þessu máli. Ég held nú, að það sæti frekar á einhverjum öðrum en þessum hv. þm. að tala digurbarklega um þetta mál, því ég veit ekki betur en það hafi tvívegis verið lagt fyrir allshn., sem hann hefir verið form fyrir, en aldrei afgr. þaðan, og ég þori að fullyrða, að hann hefir aldrei nennt að lesa frv., hvað þá meira. Hann ætti því allra manna sízt að tala svo mjög digurbarkalega um þetta mál. Og veit hann kannske ekki, að það er í samningum milli Framsfl. og Alþfl., að sett verði almenn tryggingarlöggjöf á næsta ári, sem komi til framkvæmda í ársbyrjun 1936? Hv. þm. veit hreint og beint ekki, hvað hann hefir sjálfur vanrækt að gera og hvað hann hefir undirgengizt að gera. Þó vill hann vera að setja sig sem einskonar dómara yfir mig í þessum efnum. Ég fæ því alls ekki skilið, hvernig hann er innrættur, og svo mun um fleiri.