09.10.1934
Neðri deild: 5. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í C-deild Alþingistíðinda. (4411)

24. mál, fátækralög

Bergur Jónsson [óyfirl.]:

Hæstv. atvmrh. sagði, að fyrsta ræða mín hefði verið kák, sem ekki hefði verið mark á takandi, en nefndi ekki, að síðari ræða mín hefði verið kák líka, enda hitnaði honum svo af henni, að ég hefi ekki séð hann öllu úthverfari fyrr. Þessi hæstv. ráðh. er nú ekki búinn að vera lengi ráðh., og verður það kannske ekki lengi, en hann hefði gott af að læra að stilla sig ofurlítið betur en hann hefir gert nú. Það, sem hann virtist reiðast mest af. var, að ég sagði, að hann hefði einu sinni verið skipaður í n, sem ekkert hefði gert. Út af því sagði hann, að ég hefði sem form. allshn. Nd. setið á tryggingarfrv. hans á tveim þingum. Þetta og þvílíkt er aðeins persónuleg áreitni, sem ekki hæfir manni í ráðherrastöðu, og það því síður, þar sem hæstv. ráðh. veit, að það voru ekki síður flokksbræður hans sjálfs í allshn. en aðrir, sem vildu sitja á þessum kattarþvotti hinnar frægu milliþinganefndar. Annars býst ég við, að allir, sem mál mitt hafa heyrt og eru í kyrrlátara sálarástandi en hæstv. atvmrh., hafi tekið eftir því, að ég réðist ekkert á móti tryggingarmálunum, heldur talaði aðeins um vettlingatök hans á þeim málum frá fyrstu tíð.

Að síðustu vil ég taka það fram, að ég læt mér í léttu rúmi liggja, þó að hæstv. ráðh. gretti sig af illsku og verði ferlegur ásýndar. Ég mun vísa aftur því, sem að mér er beint, hvort sem það kemur úr ráðherrastóll eða annarsstaðaðar að, og ekki sízt þegar að mér er veitzt persónulega. Hæstv. ráðh. er kallaður svefnþungur maður; það veit hann eflaust ofurvel. Hvort hann er það í raun og veru, skal ég ekki fullyrða, þó að það virðist óneitanlega benda í þá átt, að hann sé ekki vaknaður til fulls í ráðherradómi sínum, þar sem hann ber aðeins fram kákfrv. eitt í einu mesta gaspursmáli jafnaðarmanna.

Ég mun nú láta máli mínu lokið að þessu sinni, og læt mér á sama standa, þó að hæstv. ráðh. þrammi upp í ræðustólinn aftur og sýni þingheimi sitt fagra andlit, sem hann sýndi áðan.