09.10.1934
Efri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í C-deild Alþingistíðinda. (4433)

9. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Pétur Magnússon [óyfirl.]:

Ég verð að segja, að það er einkennilegasta röksemdaleiðsla, sem ég man eftir að hafa heyrt, þegar hæstv. fjmrh. ber það fram, að af því að hér sé varið stórfé til þess að reka strandferðir, þá sé ekki ósanngjarnt að skattleggja samgöngur á landi. (Fjmrh.: Þetta er misskilningur hjá hv. þm. Ég átti við, að samkv. röksemdafærslum hv. 1. þm. Reykv. mætti líta þannig á). Ég gat ekki skilið hæstv. ráðh. öðruvísi en að hann teldi þetta hliðstætt við járnbrautir annara þjóða, og af því lagt væri stórfé til strandferðanna, þá væri rétt að leggja skalt á þá menn, sem ekki geta haft nein not af þeim. Það þarf engum að blandast hugur um, á hverjum þetta kemur niður. Þessi skattur kemur vitanlega fyrst og fremst niður á þeim, sem við hafnleysi búa og verða að nota bifreiðar til allra flutninga, en það eru aðallega þeir, sem á Suðurlandsundirlendinu búa. Samgönguerfiðleikar þeirra eru svo miklir, að ég er sannfærður um, að ekki líður á löngu áður en ríkið neyðist til þess að leggja fram fé frekar en verið hefir til þess að létta undir með þeim. Það gengur því algerlega í öfuga átt að skattleggja þau einu samgöngutæki, sem hægt er að nota í þessum héruðum. Ég get frætt hæstv. ráðh. á því, að bændur á Suðurlandsundirlendinu, sem verða að hafa alla verzlun í Rvík, verða í sumum tilfellum að greiða hærra gjöld fyrir flutninginn heim til sín heldur en fyrir vöruna sjálfa. Þetta á við um ýmsa þungavöru, eins og t. d. kol, sem sumir bændur komast nú ekki hjá að kaupa.

Ég geri náttúrlega ekki lítið úr þeirri þörf, sem nú er á því að afla ríkissjóði tekna, og ég skal ekki fara út í það að þessu sinni, af hverju sú þörf er sprottin. En mér þykir það undarlegt, ef hæstv. stj. getur ekki fundið réttlátari leiðir til að leggja á skatta heldur en þá, sem hér er stungið upp á. Hæstv. stj. hlýtur að vita það, að bílarnir eru ekki notaðir hér á landi nema að hverfandi litlu leyti sem lúksusvara. Nauðsynlega bílanotkunin er svo margfalt meiri, að það kemur ekki til mála að skattleggja lúksusnotkunina þannig, að nauðsynlega notkunin komi þar undir. Ef farið væri inn á þá braut, yrði ekki hægt að komast hjá því að styrkja með a. m. k. hlutfallslega jafnháu framlagi þau héruð, sem verst eru sett með tilliti til samgangna á sjó.