10.11.1934
Neðri deild: 33. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í C-deild Alþingistíðinda. (4439)

123. mál, atvinna við siglingar

Páll Þorbjörnsson:

Ég hefi skrifað undir nál. með fyrirvara, því mér þótti varhugavert að ganga inn á þessa braut, nema ströng skilyrði séu sett. Ég viðurkenni nauðsynina á því að endurskoða löggjöfina um atvinnu við siglingar. En þegar henni var breytt þannig, að smáskipaprófið heimilar skipstjórn á 60 tonna skipi í stað 30, þá er farið í skakka átt. Það er öllum kunnugt, sem kynnt hafa sér þessi mál, að þekking þeirra manna, sem hafa smáskipapróf, er mjög takmörkuð. En eftir því sem skipið stækkar, verður starf skipstjóra vandasamara og fjölþættara að ýmsu leyti. Ég verð að segja það, án þess það þurfi að skoðast sem meiðandi fyrir nokkurn, að mikill hluti þeirra manna, sem fengizt hafa við þessi störf, er ekki fær um að taka stærri skip. Þeir hafa fengið lélega undirbúningsmenntun og eru af þeim sökum ekki starfinu vaxnir.

Ég ætla ekki að verða langorður nú, en hefi hugsað mér að bera fram brtt. við frv. við 3. umr., sem ég er að vinna að með mönnum utan þings. Ég skal viðurkenna, að í einstaka tilfellum er ástæða til að veita undanþágu. — Ég veit t. d., að það er sérstakt tilfelli, sem vakir fyrir öðrum flm. þessa frv. Það er maður, sem kemur til með að stýra bát hér á ferðum um Faxaflóa.

Eins og frv. er nú, verður ráðh. gefið óbundið vald til að veita undanþágu um skipstjórn á skipum allt að 250 smál. Skilyrðin eru aðeins þau, að hann hafi verið skipstjóri í 5 ár og skipinu ekki hlekkzt á undir hans stjórn. N. hefir orðið sammála um orðabreyt. á þessu, því skipsstrand er engin sönnun fyrir því, að það sé skipstjóra að kenna, en það er allt annað að verða eitthvað á við skipstjórn, og er því eðlilegra að orða það svo. Sjútvn. ber fram brtt., sem að mínum dómi takmarkar ekki nægilega, hvað langt má ganga í veitingu undanþága.