12.10.1934
Neðri deild: 8. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í C-deild Alþingistíðinda. (4449)

54. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Bergur Jónsson:

Ég geri ráð fyrir, eftir orðum hv. síðasta ræðumanns, að tilefnið til flutnings þessa frv. sé stjórnarráðsúrskurður, sem fyrir nokkru hefir fallið út af hreppsnefndarkosningu á Patreksfirði. Nú vill svo einkennilega til, að ég hefi heyrt bæði á hv. síðasta ræðumanni og fleirum af hans flokksmönnum, að þessi úrskurður atvmrh., sem er þó þeirra samflokksmaður, sé rangur. Ég er ekki í neinum vafa um, að hver sæmilega greinagóður maður getur séð, að úrskurðurinn er réttur. Í lögunum um þessi efni er gefin mjög þröng heimild til að viðhafa hlutfallskosningar til hreppsnefnda með því að safna undirskriftum eins margra kjósenda og þarf til að koma að a. m. k. einum manni. Nú er því þannig varið, að þar, sem hlutfallskosning til hreppsnefnda er heimiluð í lögunum, er vísað til gr. framar í þeim, en einmitt stoppuð við 18. gr., en í 19. gr. l. er tekið fram um varafulltrúa í bæjarstjórnum. Ég verð því að álíta, að löggjafinn hafi sleppt því með vilja að vitna til 19. gr., vegna þess að ekki hefir verið ætlazt til, að kosnir skyldu varafulltrúar við hlutfallskosningar í hreppsnefndir. Ég veit, að hv. flm. finnst þetta ranglæti, eða segir a. m. k. að sér finnist það. En ég fæ ekki séð, að hér sé um neitt ranglæti að ræða, þó þetta sé þannig úr garði gert. Ég held því fram, að það myndi einmitt skapast ósamræmi í l., ef breyt. þessi næði fram að ganga. Eftir þeim l., sem nú gilda, er um þrennskonar aðferðir við hreppsnefndarkosningar að ræða, aðalreglan, og sú, sem gilti áður, er að kjósa opinberlega eða í heyranda hljóði með nafnakalli. Önnur aðferðin er leynileg kosning, þar sem kosið er skriflega eftir nr. á kjörskrá, og loks hlutfallskosning. Það er alveg gefið, að eftir tveimur fyrri aðferðunum getur ekki verið um kosningu varafulltrúa að ræða, og eigi að vera fullt samræmi í l., getur ekki heldur verið um það að ræða eftir þriðju aðferðinni. Þetta er líka algerlega logiskt hjá löggjafanum, og sjálfsagt að sama regla gildi um þetta, hver aðferðin sem höfð er við kosninguna.

Ég tel því þessa breyt. á l. geta valdið glundroða, nema því aðeins, að gengið sé inn á þá braut að hafa hlutfallskosningar yfir allt.

Segjum t. d., að einn flokkur sé mjög sterkur í einu byggðarlagi og eigi meiri hl. í kjörstjórn, og geti því hindrað hlutfallskosningu, þá gæti farið svo, að sá flokkur fengi alla, kosna, þó hann eftir atkvæðamagni sínu ætti ekki að fá nema t. d. 1 af 3, sem kjósa ætti. Það mundi líka valda ósamræmi, ef í hreppsnefnd, sem skipuð væri t. d. 7 mönnum og kosin í tvennu lagi, og úr ættu að ganga 4 menn, sem þá samkv. þessu fengju varafulltrúa, en hinir 3, sem fyrir væru í n., hefðu enga varafulltrúa. Mig furðar ekki á því, þó hv. flm. hafi ekki hugsað út í þessi atriði, því ég hefi áður fengið reynslu fyrir því, að hann ber ekki skyn á þessa hluti. Ég sé það á grg. frv., að hv. flm. hefir miðað frv. þetta við kosninguna á Patreksfirði. (SE: Það stendur ekkert um Patreksfjörð í grg.). Nei, en það þarf ekkert að standa um Patreksfjörð; ég er þaðan, og hv. þm. hefir stundum komið þar. Hv. flm. talaði um, að varafulltrúa hefði verið bægt frá að sitja fund. Það hefir engum verið bægt frá því að sitja fund, vegna þess að það var enginn varafulltrúi kosinn. Hv. flm. telur heimildina til hlutfallskosninga meiningarleysu, ef ekki séu kjörnir varafulltrúar. Þetta er bara eins og hver önnur vitleysa. Oft eru viðhafðar hlutfallskosningar á þingi, og ekki eru kosnar varaþingnefndir, en allt þetta tal hv. þm. stafar af hans mjög svo takmarkaða varaviti, sem ég reyndur þekkti áður. — Ég sé ekki ástæðu til, að frv. þetta verði drepið nú þegar. Það má gjarnan fara til n., og þar sem ég á sæti í þeirri n., sem væntanlega fjallar um frv. þetta, fæ ég síðar tækifæri til að athuga þetta nánar.

Ég vil að lokum minna á það, að hv. d. samþ. í fyrra þál. frá allshn. Nd. til stj., að hún léti undirbúa og semja frv. til breyt. á l. um kosningar í málefnum sveitar- og bæjarstjórna. En stj. hefir ekkert gert ennþá, og finnst mér því eðlilegra, að hert væri á stj. um þá endurskoðun, sem d. hefir fyrirskipað, heldur en fara að samþ. smábreyt., sem engu þýðingu hafa.