13.11.1934
Neðri deild: 35. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í C-deild Alþingistíðinda. (4462)

123. mál, atvinna við siglingar

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég held, að það sé misskilningur hjá hv. 3. landsk., flm. þessarar brtt., að ef þetta frv. verður samþ. eins og það nú er, þá opni það skilyrðislaust leið fyrir menn til þess að geta fengið þessi auknu réttindi. Því að það, sem farið er fram á, er einungis það, að stj. er heimilað undir sérstökum kringumstæðum að veita þessi auknu réttindi. Ég geng þess ekki dulinn, að stj. mun leita fyrir sér um það hjá ýmsum aðilum, sem þekkingu hafa í þessu efni. Það þarf ekki að setja neitt um það í frv. Stj. mun leita upplýsinga um þá menn, sem fara fram á þessi auknu réttindi, og svo mun hún vitanlega kveða upp sinn dóm um það, hvort þessi réttindi skuli veitt, þegar hún hefir aflað sér nauðsynlegra upplýsinga í þessu efni. Ég held því af þessari ástæðu, að óþarfi sé að setja inn í frv. þau ákvæði, sem hv. flm. brtt. á þskj. 410 gerir ráð fyrir að gert verði samkv. henni, af því að stj. hefir í hendi sinni að afla þeirra upplýsinga, sem þar er gert ráð fyrir að hún öðlist við veitingu slíkrar undanþágu.

Hinsvegar álít ég varhugavert að binda þetta undantekningarlaust þeim skilyrðum, að allir þessir 3 aðilar skuli þurfa að veita sín meðmæli til þess að þetta skuli veitt. Það er vitanlegt, að það er mjög mikil andstaða gegn því hjá fagfélögum — ég á hér við skipstjórafélögin — , að þeir, sem ekki hafa fyllstu réttindi — þ. e. a. s. meirapróf —, fái nokkur aukin réttindi til þess að sigla skipum hér við land. Og það byggist á því, að sá félagsskapur heldur svo fast utan um þá aðstöðu, sem þessir meiraprófsmenn hafa skapað sér, að það getur ekki komið fyrir undir neinum kringumstæðum, að þrautreyndir siglingamenn geti fengið að taka að sér það hlutverk, sem hinir fengu réttindi til með sínu skipstjóraprófi. Það er í rauninni ekki að gera ráð fyrir því, að Skipstjórafélagið verði neinn aðili í þessu máli, heldur er það Stýrimannafélagið. Ég þekki ekki eins vel af reynslu aðstöðu þeirra manna í þessu efni eins og skipstjóranna, en það er vitanlegt, að af völdum þessa skipstjórafélags var á þinginu 1925 felld till., sem fyrir lá um að veita stj. heimild til þess að veita undanþágu frá þessum lögum. Reynslan hefir alltaf sýnt, að það er ómögulegt að una við þessa löggjöf eins og hún er, og að er ósanngjarnt að mega ekki víkja frá henni, og það er hægt að gera án þess að skerða öryggið á sjónum nokkurn hlut.

Ég vildi þess vegna heyra undirtektir hv. flm. þessarar till., sem ég veit, að sér það eins vel og við, sem að þessu frv. stöndum, að það er ómögulegt eða erfitt að búa við þessa löggjöf eins og hún nú er, en engin frávikningarheimild hefir verið til um það, hvort stj. sé þetta innan handar, og megi ganga út frá því sem vísu, að hún afli sér þeirra upplýsinga, sem nauðsynlegar eru, án þess að nokkuð sé tekið fram um það í frv., því að það er engan veginn meining okkar flm. frv., að gengið sé svo langt í þessu, að það verði algild regla, að þessir menn fái almennt réttindi á því sviði, sem meiraprófsmenn hafa nú, heldur aðeins, að í undantekningartilfellum verði slík undanþága veitt.

Það er, að ég ætla, önnur brtt. við þetta frv. frá hv. 8. landsk. Hún snertir mótornámskeið, en ekki efni þessa frv. eins og það er, — að það skuli tekið upp í lögin frá 1925, að mótornámskeið skuli einnig haldið á Siglufirði, eins og ákveðið er í lögunum, að skuli gert í nokkrum öðrum kaupstöðum á landinu. Sú brtt. liggur fyrir utan efni þessa frv. og raskar ekki því, hvort það verður samþ. eða ekki.