13.10.1934
Neðri deild: 9. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í C-deild Alþingistíðinda. (4467)

59. mál, fiskiráð

Héðinn Valdimarsson:

Það er orðinn meiri blásturinn í hv. þm. G.-K. síðan hann varð form. Sjálfstfl. Það má enginn andstæðinga hans standa upp án þess að hann beri þeim á brýn, að þeir séu of ungir, vanti sanngirni, hæfileika eða vitsmuni. Þetta er þeim mun hlægilegra, þar sem það er alkunna, að hann er gersneyddur þessum eiginleikum sjálfur, eða þá að hann fer svo dult með þá, að enginn verður þeirra var. Ég skal ekki deila um verkefni Fisksölusamlagsins, en mér virðist það segja sig sjálft, að það eigi að leita allra mögulegra markaða, sem hugsanlegt er að fá fyrir fiskframleiðslu landsmanna; svo mikla vernd hefir það fengið og svo miklu fé hefir það yfir að ráða. Annars vil ég aðeins undirstrika það, að eigi eitthvað að gera fyrir fisksölumálið, þá verður að vera fé til umráða og vald bak við til þess að framkvæma, en hvorugu hefir hið ómerkilega fiskiráð hv. þm. G.-K.