13.11.1934
Neðri deild: 35. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í C-deild Alþingistíðinda. (4469)

123. mál, atvinna við siglingar

Garðar Þorsteinsson:

Ég hefi komið fram með brtt. við þetta frv. eftir beiðni skipstjórafélagsins á Siglufirði, og hefir henni verið tekið vel. Sú brtt. gengur út á það, að í 7. gr. l. frá 1922, þar sem upptalið er, hvað þarf að kunna til þess að standast smáskipapróf — og þeim lögum var breytt 1925, og þetta próf er ekki hægt að taka nema í Reykjavík, Akureyri, Seyðisfirði og Ísafirði — , að við hana verði bætt, að þetta próf sé einnig hægt að taka á Siglufirði.

Eins og hv. 3. landsk. tók fram, þá eru skilyrði fyrir því, að hægt sé að hafa þetta próf á Siglufirði, og virðist því ekki ástæða til að útiloka þennan kaupstað frá þessum réttindum. E n af því að fyrirmæli þeirra l. voru ekki tekin upp í frv., þá hefi ég borið fram brtt. við fyrirsögn frv., að henni verði breytt í samræmi við þetta.

Viðvíkjandi brtt. hv. 3. landsk. verð ég að segja, að mér finnst ekki óeðlilegt, að það séu settar nokkrar skorður gegn því, að menn geti á eins auðveldan hátt og gert er ráð fyrir í frv. öðlazt aukin réttindi. Þeir, sem hafa sérþekkingu í einhverri grein, eins og skipstjórar hafa, eiga að fá einhverja vernd löggjafans gegn því, að menn geti, án verðleika á ýmsum sviðum, fengið sömu réttindi án þess að hafa orðið að kosta sig til náms, eins og þeir hafa orðið að gera, og vinna sig upp í þá stöðu. Það getur verið matsatriði, hver skilyrðin eiga að vera, hvort forstöðumaður stýrimannaskólans, formaður Stýrimannfél. Íslands og hlutaðeigandi skráningarstjóri eiga allir að gefa sín meðmæli, eða sumir, en mér finnst samt eiga að setja nokkur skilyrði fyrir þessu, og með því að ekki er komin önnur till., sem setur skilyrðin vægari, mun ég greiða þessari till. atkv.