13.11.1934
Neðri deild: 35. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í C-deild Alþingistíðinda. (4489)

59. mál, fiskiráð

Frsm. minni hl. (Sigurður Kristjánsson):

Ég þarf ekki að lýsa efni þessa frv. fyrir hv. þdm. Það hefir verið svo lengi á döfinni, að ég býst við, að allir hafi kynnt sér það og þær ástæður, sem fyrir því eru færðar.

Það er rétt, að frv. er fyrirferðarminna en grg. þess, og er það eðlilegt, vegna þess að þau vandræði, sem hafa komið því af stað, eru svo fjölþætt og yfirgripsmikil, að það var eðlilegt, að grg. yrði löng og ýtarleg.

Ég verð að segja það, að ef það væri af einlægni mælt af hv. frsm. meiri hl., að hann álíti vandræði sjávarútvegsins það mál, sem mest riði á á þessu þingi að yrði leyst, þá hefði mátt búast við, að þeim málum yrði öðruvísi tekið hér en raun hefir orðið á. Ég er sammála þeim orðum hans, að sjávarútvegsmálin séu nú þau mál, sem mest ríði á að fá skynsamlega úrlausn á. En það er einkennilegt, að allar þær till., hverju nafni sem nefnast, sem hér hafa komið fram í þá átt að ráða bót á þessum vandræðum, hafa fengið hér ákaflegu þurrar viðtökur af allmörgum hv. þm. úr stjórnarliðinu, en ekki beinlínis fjandsamlegar viðtökur nema frá einum manni, en það er hv. form. sjútvn.

Ég held, að óhætt sé að segja, að þetta nál., sem ég býst við, að hv. frsm. meiri hl. hafi samið, þó að hinir meirihl.mennirnir hafi skrifað undir það — annar reyndar með fyrirvara — sé eitt það merkilegasta plagg, sem ég hefi séð á þessu þingi, og skal ég koma að því síðar. En ég vildi halda áfram að fara nokkrum fleiri orðum um þau vandræði, sem sjávarútvegurinn hefir nú við að stríða.

Hv. frsm. meiri hl. virtist vilja kenna vandræðin því, að hér vantaði skipulag. Ég vil segja honum það, að þau vandræði, sem steðja nú að sjávarútveginum, eru mikið til utanaðkomandi. Það eru hinar ýmsu skorður, sem okkur eru settar um sölu á sjávarafurðum, og aukið verðfall, sem hér er um að kenna. Það eru einmitt þessar skorður, sem við verðum að mæta með ýmiskonar ráðstöfunum frá hendi hins opinbera og þeim mönnum hér á landi, sem standa fyrir sjávarútvegsmálunum og stunda þá atvinnugrein. Það skapast þá fyrst veruleg þörf á að gera ráðstafanir samkonar og þessar, sem hér liggja fyrir, þegar við eigum þessum örðugleikum að mæta. En mér skilst á hv. frsm. meiri hl., að hann álíti, að þessar ráðstafanir þurfi að gera, hvernig sem á stendur í markaðslöndunum.

Nú hefir það verið svo um 2—3 ár, að íslenzkir útgerðarmenn hafa verið að berjast við að mæta þessum utanaðkomandi örðugleikum. Og það er í rauninni ekkert undarlegt, þó að þeir menn berjist fyrir slíkum aðgerðum, sem sjálfir stunda þessa atvinnu og eru þeim málum allra manna kunnugastir, eða réttara sagt einu mennirnir, sem bera verulegt skyn á þessi mál.

Kuldi sá, sem umbótamál sjávarútvegsins hafa mætt í þessari d., stafar af því, að þeir menn, sem hafa mætt þessum málum með kulda, bera ekki góðan hug til þeirra manna, sem standa að sjávarútveginum. Það er ekki óvild gegn því, að menn bjargi sér og öðrum með því að afla afurða úr sjónum. Þess vegna er það, að með öllum þeim till., sem frá þeim koma, er stefnt að sameiginlegu marki, og þetta mark er það, að ýta burt frá aðgerðum í þessum málum þeim mönnum, sem atvinnuveginn hafa stundað og hafa þar af leiðandi meira til brunns að bera en aðrir, en troða að öðrum mönnum, sem engin trygging er fyrir, að hafi vit á þeim, og taka þau sem mest undir ráðstafanir ríkisins og þess pólitíska flokks, sem að stj. stendur.

Það er eftirtektarvert, að í frv. því, sem hv. frsm. meiri hl. gat um, að yrði lagt bráðum fyrir þessa hv. d., er ætlazt til, að komið verði upp einhverskonar ráði, en þar á bara af 7 mönnum ekki að vera nema 1 frá útgerðarmönnum eða þeim, sem hafa fengizt við útgerðarmál. Eins og ég sagði áðan, þá eru nokkur ár, 3 eða 4, sem sérstaklega hafa sýnt okkur, að það þarf að gera sérstakar ráðstafanir til að halda við markaðinum fyrir sjávarafurðir og halda uppi þessum mikla atvinnurekstri. Á þeim árum hefir ýmislegt verið gert af sjávarútvegsmönnum, og helzti árangurinn er samtök þau — að mestu leyti frjáls —, sem kölluð eru Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda. Fiskframleiðendur víðsvegar um landið halda fundi í Reykjavík til að skipa þessum málum eftir því, sem reynslan hefir sýnt, að nauðsynlegt væri. Þeir hafa að mestu leyti knúið sér saman um að samþ. ákveðnar reglur um meðferð þessara mála. Hafa þar verið með í ráðum lánsstofnanir þær, sem ríkið heldur uppi og lána fé til útgerðarinnar, og þeir menn aðrir, sem hafa þótt vel til þess fallnir að vera ráðunautar í þessum málum. Jafnframt vitum við, að stofnaður hefir verið verðjöfnunar- og markaðleitarsjóður, sem er ætlaður til að bæta að einhverju leyti fyrir útgerðinni, þannig, að markaðir lokist ekki. Þá virðist vanta enn einn aðila, sem sé þann, sem leiti að nýjum markaðslöndum og rannsaki markaðsmöguleika gömlu markaðslandanna og breytingar á verzlunaraðferðum og einnig hvernig fiskafurðir skuli vera verkaðar og tilreiddar fyrir þessa markaði.

Úr þessu er fiskiráðinu ætlað að bæta, og sjávarútvegsmenn skilja vel sjálfir, að það er ætlazt til, að þessir aðilar, Sölusambandið og fiskiráðið, hafi fullkomið samstarf. Og það er engin ástæða til að ætla, að þessir aðilar mundu vilja rífa niður hver fyrir öðrum, af því að þeir eiga allir að starfa að því sama, að styrkja sjávarútveginn og halda uppi markaði fyrir sjávarafurðir. Þessu gengur illa að koma inn í meðvitund þeirra manna, sem aldrei sjá annað en ríkisrekstur. Þeim gengur illa að skilja, að atvinnurekendur sjálfir geti haft samtök um þennan atvinnurekstur til að sjá honum borgið. Þess vegna er það, að hv. meiri hl. sjútvn. heldur endilega, að það muni verða einhver óvild milli fiskiráðs og útflytjenda. Þeir segja, að fiskiráðið skorti vald og það skorti lög til að knýja útflytjendur til að selja á bezta markaðinum, sem fáanlegur er, og það skorti vald til að þröngva mönnum til að hagnýta þær upplýsingar, sem þeim eru gefnar um markaði og verkunaraðferðir. Þetta halda þessir menn, af því að þeir hafa aldrei komizt inn í þann rétta hugsunarhátt atvinnurekenda hér á landi. Af sömu rökum er það runnið, þegar þeir vilja sparka sjálfum atvinnurekendunum burt; þegar á að sjá atvinnurekstri þeirra borgið.

Hv. frsm. meiri hl. segir, að þetta fiskiráð ætti að geyma í 6 mánuði að gefa stj. vitneskju um það, hvað því hefði komið til hugar að gera. Þetta er náttúrlega misskilningur hjá þessum hv. þm. Það er vitanlegt, að eftir frv. á fiskiráðið að nota hvert tækifæri til umbóta, hvenær sem líkur eru fyrir rýmkun á markaði eða líkur til, að nýr markaður opnist, og þá á það undir eins að gera ráðstafanir í því efni. Hitt er allt annað mál, þó að fiskiráðið eigi að gefa stj. heildarskýrslu 2 sinnum á ári. Það er sjálfsagt, því að fiskiráðið þarf að geta leitað til stj., ef það þarf að fá hjálp stj., annaðhvort með fyrirskipunum, sem stj. getur gefið, eða þá með lagafyrirmælum.

Og þá kem ég að því, sem hv. frsm. meiri hl. hafði fyrir aðalinntakið í sinni ræðu, og helztu ástæðuna fyrir því, að hann vildi ekki fylgja málinu, en það var, að fiskiráðið mundi skorta vald til að gera það, sem því þóknaðist. Ég vil með skírskotun til þess, sem ég hefi áður sagt um þessa samvinnu, sem á að vera á milli Sölusambandsins og fiskiráðsins, benda á það, að á þessu er lítil hætta, og þar að auki er alltaf hægt að afla sér þessa valds, ef með þyrfti. Ég efast ekki um, ef höfuðatvinnuvegur landsins væri í vanda staddur fyrir þrjózku fiskframleiðenda, þá er alltaf hægt að afla sér þeirrar löggjafar. hvort sem þing sæti eða ekki. Þetta hefir áður verið gert, og það mundi aldrei verða átalið, ef það væri gert af brýnni þörf. En þetta var ekki höfuðástæðan hjá hv. frsm. meiri hl., því að hann neitaði alveg að koma með brtt. Hans meining var sú, að koma málinu fyrir kattarnef. — Hann vildi ekki sinna því fremur en öðrum umbótamálum sjávarútvegsins, sem við sjálfstæðismenn höfum borið fram ár þessu þingi. Þess vegna kemur hv. meiri hl. með þetta fáránlega álit, sem ég sagði áðan, að vera mundi alveg einsdæmi meðal þingskjala.

Hv. frsm. meiri hl. leyfir sér að segja um þann mann, sem hefir samið þetta frv. og vitað er, að er allra manna kunnugastur þessum málum, að hann beri ekkert skyn á þessi mál, það sé tóm vitleysa, sem hann beri fram, ekkert hægt að nota úr frv., það sé svo vanhugsað og losaralegt. En sjálfur treystir meiri hl. sér ekki til að koma með neinar brtt. Þetta er því ekkert nema gífuryrði manna, sem sumpart skortir þekkingu, sumpart vilja til þess að sinna málinu.

Hv. frsm. studdi beiðni sína um frávísun málsins með því, að það mundi koma fram frv. um allsherjarskipun þessara mála. Ég hefi séð þetta frv. í uppkasti og sé ekki, að þetta frv. þurfi að bíða fyrir þau. Það má vera, að það sé svo með það eins og fleiri, sem hafa verið borin fram af stj., að þeim sé fyrirfram tryggður framgangur, og það sé því aðeins fyrir formsins sakir, að þau verða að koma hér undir atkv. Um þetta veit ég ekki. En um frv. sjálft er það að segja, að það er ekki annað en tilraun til uppvakningar á samskonar stofnun og síldareinkasalan sáluga var, nema hvað nú á einkasalan að ná yfir allar sjávarafurðir. En auk þessa er það skreytt með nokkrum stolnum fjöðrum, svo sem hugmyndinni um fiskiráð, og á að gera það aðgengilegra á þennan hátt. En af því að frv. þetta liggur ekki fyrir nú, mun ég ekki fara nánar út í efni þess að sinni, en vænti þess, að frv. um fiskiráð fái hér sína afgreiðslu, hver sem hún verður, án alls tillits til þess frv. Hin svokallaða rökst. dagskrá er byggð á hlut, sem alls ekki var til, þegar hún var samin, og því var hún þá alveg út í loftið, en hinsvegar er hún alveg eðlileg að því leyti, að meiri hl. sjútvn. vill alls ekki á neinn hátt sinna nauðsynjamálum sjávarútvegsins. Ég vænti þess því, að þessu máli verði ekki vísað frá með neinum vífilengjum, heldur komi það skýrt í ljós, hvort deildin ætlar að drepa það eða ekki, og sýni þm. þar með hug sinn til sjávarútvegsins, því að í þessu frv. felast allir sýnilegir möguleikar til umbóta á sölu sjávarafurða og útvegun nýrra markað.