20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í C-deild Alþingistíðinda. (4503)

59. mál, fiskiráð

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Þetta er áframhald af 2. umr. þessa máls, og hafa þegar farið fram ýtarlegar umr. um málið, bæði við 1. umr. og eins við fyrri hluta þessarar umr., sem fram fór hér í d. fyrir nokkru síðan. Ég hefi því í sjálfu sér ekki miklu að bæta við það, sem ég hefi áður sagt um þetta mál, einkum vegna þess, að hv. fram. meiri hl., þm. Ísaf., sá sér ekki fært að gera tilraun til að hrekja neitt af því, sem ég hafði haldið fram í málinu.

Ég get lýst ánægju minni yfir því, að hv. þm. Barð. hefir fundið alveg sérstaka ástæðu til að gera grein fyrir því, hvers vegna hann skrifaði undir þetta nál. meiri hl. sjútvn., nál., sem ég hefi talið vera óvanalega strákslegt, og þó að hv. þm. Barð. vildi ekki beinlínis samsinna því, þá ber hans síðari framkoma í málinu, bæði sú ræða, sem hann flutti, og eins sú rökst. dagskrá, sem hann flytur, vott um það, að hann hefir í raun og veru allt aðra aðstöðu til þessa máls nú en fyrr. Ég get játað það, að ég skil vel þá aðstöðu, sem hv. þm. hefir til þessa máls, ein, og hann lýsti henni nú, þó að hún sé nokkuð önnur en sú afstaða, sem mér virtist hann hafa til málsins, þegar hann skrifaði undir nál. Hann viðurkennir fullkomlega þá hugsun, sem fyrir okkur sjálfstæðismönnum vakir í sambandi við þetta mál og hann viðurkennir nauðsyn þess, að skipa forustu í þeirri varnar- og viðreisnarbaráttu, sem íslenzk þjóð á fyrir höndum. Og það er í sjálfu sér höfuðatriði málsins, að menn viðurkenni og skilji þá nauðsyn. Ég get svo alveg deilt rólega við hann um það, á hvern hátt skuli gera það. Við lítum á lausn þessa máls hvor frá sínu sjónarmiði, og það er kannske eðlilegt, þó að nokkrar deilur verði milli mín og hans um þetta atriði, en í raun og veru er hjá okkur lítill skoðanamunur um það, hvernig skuli leysa þetta vandamál þjóðarinnar, og það er allt annað en þær strákslegu undirtektir — vægara get ég ekki orðað það —, sem koma fram í nál. meiri hl. hv. sjútvn.

Ég vænti, að hv. þm. Barð. skilji það, að eins og hann hefir sitt sjónarmið í þessu máli út frá því grundvallarviðhorfi, sem hann hefir til þessa máls, þá er það líka eðlilegt, að ég og aðrir sjálfstæðismenn höfum okkar sjónarmið.

Út af minni háttar deilum í þessu sambandi vil ég vekja athygli á því, að ég tel það lýti á frv. um fiskimálan., sem er ætlað að vera þessu máli til úrlausnar — og ég hygg, að ég fari þar rétt með — að fyrirmæli þess frv. um val nm. tryggi ekki svipað því eins vel og mínar till., að í þessa n. verði valdir þeir menn, sem færastir eru til þessa starfs. Ég get vel gert mér von um, að það samkomulag náist, sem tryggir þetta betur en fiskimálanefndarfrv. gerir nú, og ég mun ef til vill, ef ég sé nokkra von um, að þetta frv. nái fram að ganga, leitast við að gera á því atriði þessa frv. einhverja leiðréttingu, þegar það kemur frá n., eftir að það hefir gengið í gegnum 2. umr. hér í d.

Ég get í sjálfu sér miklu betur sætt mig við, að fiskiráðsfrv. verði afgr. með þeirri rökst. dagskrá, sem hv. þm. Barð. hefir nú borið fram, en með þeirri rökst. dagskrá, sem hv. þm. Ísaf. ber fram, en ég hygg, að samt sé ekki rétt að samþ. þá dagskrá. Það liggur nfl. fyrir bæði bein og óbein játning langsamlega yfirgnæfandi meiri hl. þingsins, að skipuð sé forusta á því sviði, sem frv. um fiskiráð fjallar um. Hinsvegarar er á þessu stigi málsins ekki fengin fullkomin trygging fyrir því, að frv. um fiskimálanefnd nái fram að ganga, og um það veit enginn á þessu stigi málsins. Það getur margt komið fram undir umr. um málið, sem getur fært mönnum heim sanninn um það, að því fylgi annmarkar, sem kannske eru veigameiri en menn í öndverðu hafa gert sér grein fyrir.

Ég hygg þess vegna, að réttasta afgreiðsla þessa máls, einnig frá sjónarmiði þeirra, sem telja tilganginum betur borgið með fyrirmælum frv. um fiskimálan., sé sú, að fella þessar dagskrár báðar og vísa þessu máli til 3. umr., og verði svo látið þar við sitja, þangað til séð verður um það, hvort samkomulag næst um einhvern grundvöll fyrir framgang frv. um fiskimálan., en ef ekki næst samkomulag, að láta þá þetta frv. ná fram að ganga. Þetta skilst mér, að allir geti aðhyllzt, sem vilja viðurkenna, að nauðsyn sé að tryggja þá forustu, sem frv. um fiskimálan. og frv. um fiskiráð fara fram á.

Ég legg því til, að báðar dagskrárnar verði felldar og sú leið farin, sem ég hefi nú gert grein fyrir.