20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í C-deild Alþingistíðinda. (4514)

59. mál, fiskiráð

Frsm. minni hl. (Sigurður Kristjánsson):

Það er naumast að hv. þm. Barð. hefir fengið óþægindi í magann. Ég hefi oft heyrt menn setja upp leiðinlegan ropa, en þessi var með þeim allra leiðinlegustu, sem ég hefi heyrt. Þessi hv. þm. ætlaði að fara að siða mig. Ég verð að segja það, að hann á líklega fáum mönnum meira að þakka en mér, því að ég hefi látið fenna yfir framkomu hans í þessari hv. d., af því að ég áleit, að hann væri ekki maður til að standa þar fyrir máli sínu. Ég vil biðja þennan hv. þm. að sýna fram á það, ef ég hefi farið með ósannindi. Hann fór rangt með það, að ég hefði sagt, að minni hl. hefði rekið á eftir frv. Ég minntist aldrei á það í ræðu minni. Fyrst hv. þm. er að rifja þetta upp, þá get ég sagt frá því, að minni hl. fór einu sinni fram á það við meiri hl., að frv. væri afgreitt úr n. En það var ekki nema í þetta eina skipti. — Ég ætla svo ekki að eyða fleiri skotum á hv. þm. Barð.

En fyrst ég stóð upp, þá er ekki úr vegi, að ég sendi heim skeyti, sem hv. þm. Ísaf. var að beina að formanni Sjálfstfl., en það var það, að hann hefði verið kosinn formaður flokksins af því, að að honum stæðu svo miklir peningar. Ég veit nú ekki, hverjir það eru, sem hlaða undir sig með peningum, ef það eru ekki þm. sósíalista. Ég get fullyrt, að ríkustu menn meðal hv. þm. eru forystumenn öreiganna. En það er náttúrlega ekkert óeðlilegt, að foringjarnir séu ríkir, þegar þegnarnir eru fátækir. Það getur verið samband þar í milli. Ég er kunnugri í herbúðum sjálfstæðismanna en hv. þm. Ísaf. — en þangað er yfirleitt ekki boðið nema sæmilegum mönnum — og veit því betur, hvað hefir gerzt þar. Hv. þm. G.-K. var kosinn formaður Sjálfstfl. fyrir till. sínar í þjóðmálum. Ég efast um, að það megi segja hið sama um alla þá menn, sem standa framarlega hjá sósíalistum. Mér er grunur á, að það stafi frekar af því, að þeim hefir tekizt að hlaða undir sig fjárhagslega. En þeir, sem búa í glerhúsi, ættu ekki að kasta grjóti.