20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í C-deild Alþingistíðinda. (4515)

59. mál, fiskiráð

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Hv. 6. þm. Reykv. er að nokkru leyti búinn að svara því, sem hv. þm. Ísaf. var að deila á mig. Ég get sem bezt skilið það, að ýmsir hv. þdm. telji, að Sjálfstfl. eigi menn, sent séu mér færari til að vera form. flokksins. Ég skil þetta manna bezt, en þó held ég, að það verði að leita annað að ástæðum fyrir því, að ég var valinn í þetta sæti, en þangað, sem hv. þm. Ísaf. benti til. Hann veit auðvitað, hvað ræður foringjavali í herbúðum þeirra sósíalistanna. Um hitt, sem hv. þm. kallaði undirmálstilfinningu, skal ég játa, að ég skildi ekki, hvað hann átti við, og get því ekki svarað því, en ef hann hefir átt við, að ég beri kvíðboga fyrir eða sem lítill karl þoli ekki samanburð við hann, þá get ég sagt hv. þm. Ísaf. það, að svo er ekki. Hann sagði ennfremur, að ég væri hrokafullur, en því neita ég algerlega. Þó að blöð hans flokks segi það, þá dettur andstæðingum mínum ekki í hug að orða það í tali sín á milli. Hinu þjáist ég engan veginn af, að ég þoli ekki samanburð við hv. þm. Ísaf., — það get ég sagt í fullri hreinskilni. Ég teldi mig illa farinn, ef ég væri svo sálsjúkur, að ég þyldi ekki samanburð eða samjöfnuð um andleg verðmæti við þennan hv. þm. Ég vona, að enginn taki þetta sem ofmetnað, þó ég segi þetta í sambandi við þennan hv. þm. Ég get sagt honum út af því, sem hann var að tala, um val mitt sem form. Sjálfstfl., að kosning mín stafar af persónulegu trausti og velvild til mín. En ég veit ekki, hvort hægt er að segja sama um hann í sambandi við síðustu þm.-kosningu á Ísafirði. Helzta ráðið, sem notað var í síðasta kosningabardaga, var að segja við bláfátækan mann, sem hafði unnið hjá honum, að það væri ekki verið að kjósa — ja, svo kom orð, sem ég þori ekki að hafa yfir, sem byrjar á h.... — hann Finn, þar væri verið að kjósa stefnuna. Þeir ættu ekki að láta persónulega andúð og fyrirlitningu á honum skyggja á þjónustuna við flokkinn. Þetta var helzta ráðið til að koma inn þessum hv. þm. Hann flaut inn á þessu, þrátt fyrir það, hvernig hann sjálfur er. Ef þessi litli karl treystir sér til að bera þetta af sér, þá vona ég, að forseti gefi honum orðið.