20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í C-deild Alþingistíðinda. (4518)

59. mál, fiskiráð

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Það hlægir mig að heyra þennan hv. þm. játa, að hann flaut inn af því stefnan, sem hann telur sig fylgja, er í meiri hluta, og svo getur hann miklazt af því að hafa komizt ofan á sér miklu hæfari mann. Ég gæti nákvæmlega á sama hátt tekið manninn, sem situr hér til hægri handar við mig. Þetta er sama og ég tæki hæstv. atvmrh. og segði, að hann hefði verri málstað, af því mér tókst að fella hann. Mér dettur ekki í hug að halda því fram, að það hafi verið af því, að hann væri verri málsvari. Það var vegna þess, að mín stefna hafði meira fylgi þar, eins og hans stefna, eða sú stefna, sem hann hengir sig á, hefir á Ísafirði. Ég gæti fyrirgefið öllum öðrum en þessum hv. þm., þó að þeir hefðu notað svona rök, en þegar þetta er sá maður, sem flýtur inn eingöngu vegna þess, hve fylgi stefnunnar er mikið, en munar minnstu, að persónuleg andúð og fyrirlitning felldi hann. En það hjálpaði honum m. a., að flokkurinn átti menn, sem voru honum fremri og meira virtir, og hann notaði þá til að lyfta sér. Það situr því sízt á hv. þm. Ísaf. að nota svona tyllirök, þar sem hann flaut eingöngu á flokksfylgi. (Atvmrh.: Það má vera meiri stefnan. Þetta eru glæsileg meðmæli með stefnunni).