19.11.1934
Neðri deild: 40. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í C-deild Alþingistíðinda. (4539)

131. mál, kaup á hlutabréfum í Útvegsbanka Íslands

Flm. (Jóhann Jósefsson) [óyfirl.]:

Þetta mál, á þskj. 289, er flutt af mér og hv. 3. landsk. og hv. 2. landsk. Er það borið fram þeim til skaðabóta, sem lagt hafa fram innieign sína til að bjarga Íslandsbanka. En síðan gerðist það, að þessu fé var varið til kaupa á hlutabréfum Útvegsbankans. Þessi framlög eru svo til komin, að gengið var um á milli sparifjáreigenda og þeir fengnir til að gefa loforð um, að innieign þeirra mætti nota til viðreisnar bankanum. Yfirleitt má segja, að menn hafi brugðizt vel við þessu. En þó voru nokkrir, sem ekkert lögðu af mörkum, ýmist af því að þeir vildu það ekki, eða þá af því, að ekki náðist til þeirra á þeim skamma tíma, sem söfnunin stóð yfir. Þessu hefir síðan verið skipað svo, að ríkið hefir tekið ábyrgð á innstæðufé bankans, og er nú sýnt, að hlutur þeirra manna, sem létu helming af sparifé sínu til hlutabréfakaupa, er verri en hinna, sem ekkert létu, en hafa þó síðan fengið ríkisábyrgð á allri innieign sinni. Nú er ríkissjóður orðinn aðaleigandi bankans og á 4½ millj. kr. af hlutafénu. Þó að ætlunin væri, að sparifjár- og hlutabréfaeigendur ættu að hafa tiltöluleg áhrif á skipun bankaráðs, hefir það í reyndinni orðið svo, að þessir menn, sem eru dreifðir um allt land, hafa ekki haft nein áhrif, svo að teljandi sé, á bankastjórnina. Þeirra gætir ekki á hluthafafundi, og ég held, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki gert sér far um að lofa áhrifum þessara manna að koma fram, nema síður sé. Það kjördæmi, sem ég er fulltrúi fyrir, Vestmannaeyjar, lét sérstaklega mikið af mörkum, þegar verið var að safna loforðum um hlutafé til endurreisnar Íslandsbanka, og mun þar skorta lítið á 300 þús. kr. af sparifé Vestmannaeyinga, sem þannig var sett fast í Útvegsbankanum. Nú er það vitanlegt, að hlutabréf þessi eru ekki álitin hafa almennt verðmæti. Ég hefi rekið mig á ákaflega mörg dæmi, að menn hafa reynt að selja þau eða fá út á þau lán, en ekki tekizt. Tilgangur þessa frv. er því sá, að gera þessi bréf veðhæf og að þau svari einhverjum arði. Höfum við flm. álitið rétt, að þau gæfu sama arð og sparisjóðseign. Nú er það ljóst, að eins og sakir standa muni ríkissjóður kannske eiga örðugt með að bæta á sig gjöldum. En eins og frv. gerir ráð fyrir, að þetta verði framkvæmt, ætti það ekki að verða þungur baggi eða reka sig á fjárl., sem nú verða afgr. Við höfum hagað því svo, að lögin öðlist ekki gildi fyrr en 30. júní 1935, og vaxtagreiðsla af bréfunum snertir því ekki fjárl. nú. Einnig höfum við hagað innlausn bréfanna á þann hátt, að það komi sem léttast niður á ríkissjóð. Er gert ráð fyrir, að þau verði innleyst með jöfnum afborgunum á 30 árum, en komi þó ekki til greina fyrr en eftir 5 ár. Er þetta allt gert í því skyni, að innlausn bréfanna kæmi sem léttast niður á ríkissjóð. En þrátt fyrir það væri hlutur þeirra manna, sem bréfin eiga, mikið bættur með því að gera þau lítilsháttar arðberandi og veðhæf fyrir þá, sem sitja með þau.

Nú er það vitanlegt, að fleiri lögðu fé sitt í Útvegsbankann en sparifjáreigendur einir, og býst ég því við, að sú mótbára komi fram, að með því að samþ. þetta frv. sé verið að gefa Hambrosbankanum og Privatbankanum undir fótinn um samskonar fríðindi frá ríkinu. En því er þar til að svara, að báðir bankarnir munu nú þegar hafa ymprað á því, að ríkið tryggði að einhverju leyti eign þeirra í Útvegsbankanum. Einnig er hér annað atriði talsvert þýðingarmikið, að sparifé, sem stóð inni í bankanum, var engan veginn spekulationsfé, og hefir því allt annan siðferðislegan rétt en það fé, sem lagt hefir verið í bankann sem spekulation. Ég veit til þess að a. m. k. í einu landi Norðurálfunnar eru gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að tryggja sparifé manna, þegar verðhrun steðjar að. Munu margir líta svo á, að innieign sparifjár eigi skilið sérstaka vernd þess opinbera. Enda þarf ekki að fara í neinar grafgötur til að leita álits Alþ. um það atriði, því svo skammt er síðan það tók ábyrgð á sparifjáreign manna, fyrst í Landsbankanum, svo í Útvegsbankanum og að ég held einnig í Búnaðarbankanum. Sýnir þetta skýrt, að Alþ. hefir litið svo á, að spariféð ætti skilið sérstaka vernd frá löggjafarvaldinu.

Það mun einnig vera svo, að þeir, sem hér eiga hlut að máli og sparifé lofuðu á sínum tíma til endurreisnar Íslandsbanka, telja margir sig ekki vel með farna, þegar féð var lagt í Útvegsbankann, í stað þess að halda Íslandsbanka starfandi áfram, eins og til var ætlazt þegar fénu var lofað. En hér skiptir það ekki máli, því hér er aðeins um siðferðislegan rétt að ræða, en verður ekki gert að umtalsefni, hvort nokkrum sé sérstaklega um að kenna, að fólk ráðstafaði þannig fé sínu í þeirri góðu trú, að það væri að bjarga bankanum og atvinnuvegum þjóðarinnar. Ég verð því að segja, að mér finnst sanngjarnt, að það fólk, sem á vandræðatímum fyrir bankann sýndi mesta fórnfýsi og lét mest af mörkum, fái þær réttarbætur frá löggjafarvaldinu, sem hér er farið fram á, og að það eigi þær fullkomlega skilið. Ekki vegna þess, að ég viti ekki, að ríkið geti með lagakrókum skotið sér undan því, en ég tel ekki sæmandi frá siðferðislegu sjónarmiði, að ríkið geri ekki eitthvað til að rétta hlut þessara manna.

Ég hefi þá minnzt á nokkrar mótbárur, sem ég hefi orðið var við í einkasamtölum, en þó er eftir ein, sem ég býst við, að komi fram, sú, að fólkið hefði tapað fénu hvort sem var. Um það má vitanlega deila, því þar liggja fyrir nokkuð jöfn rök til að sanna og afsanna. En það, sem skiptir hér mestu máli, er það, að öll sanngirni mælir með því, að gera ekki verri aðstöðu þeirra manna, sem mesta sýndu fórnfýsi, en hinna, sem héldu að sér höndum, þegar verið var að gera ráðstafanir til að bjarga, ekki aðeins bankanum, heldur atvinnuvegi, sem átti afkomu sína undir, a. m. k. í bili, að ekki yrði öllum sundum lokað við Íslandsbanka, eða aðra stofnun, sem tæki við hans hlutverki. Þeir, sem á erfiðum tíma fórnuðu fé sínu til að hjálpa atvinnuvegi, sem þjóðarbúskapurinn hvílir mest á, eiga fyrir þá sök fullkomlega skilið, að tekið sé tillit til þess nú. — Að lokum vil ég ennfremur benda á, að þetta fé er sízt frá stóreignamönnum, því það gengur yfirleitt svo, að þeir, sem reka atvinnu í stærri stíl, eiga sjaldan fé á sparisjóði, heldur hafa það í veltunni, sem kallað er. En mjög margt af því fólki, sem á fé sitt á sparisjóði, er verkafólk, sem sparað hefir saman nokkra fjárupphæð til að búa að á elliárunum eða ef í nauðir ræki. Er það ein ástæða enn til að tryggja, að þetta fólk njóti þessara samanspöruðu aura. Ég hefi þá minnzt á þau höfuðrök, sem hníga að því, að réttmætt sé, að ríkið rétti hlut þeirra manna, sem hér eiga hlut að máli. Vænti ég, að hv. d. fallist á frv. og vísi því að umr. lokinni til fjhn.