19.11.1934
Neðri deild: 40. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í C-deild Alþingistíðinda. (4543)

131. mál, kaup á hlutabréfum í Útvegsbanka Íslands

Héðinn Valdimarsson:

Ég vil eindregið taka undir þessi síðustu orð hæstv. fjmrh. Mér þykir næsta undarlegt, að hv. þm. Vestm., sem er meðflm. að frv. um skuldaskilasjóð útgerðarmanna og fann þar ekki aðra leið til að bjarga útgerðinni en taka til þess beina tekjustofna ríkissjóðs, skuli hér vilja gefa hluthöfum í Útvegsbankanum hvorki meira né minna en 2 millj. kr., sem eiga að útborgast úr ríkissjóði á 30 árum. Því enginn gengur þess dulinn, að hlutabréf Íslandsbanka eru lítils eða einskis virði. Þetta frv. sýnir því aðeins það, að hv. flm. bera meiri umhyggju fyrir þeim hluthöfum, sem hér eiga hlut að máli, en útgerðarmönnum. Nú er ekki hægt að segja, að aðrir beri ábyrgð á, að þetta hlutafé var lagt fram, en gamla Íslandsbankastjórnin og söfnunarnefnd hlutafjárins í Útvegsbankann, sem grundvallaði starfsemi sína á röngum skýrslum eftirlitsmanns banka og 2. þm. Rang. um, að bankinn ætti fyrir skuldum. Þá mun ekki hægt að neita, að fleiri kröfur hliðstæðar hafa verið orðaðar, bæði af Hambrosbanka og Privatbankanum, og telja þeir sig hafa fengið vilyrði frá sendiherra um, að hlutafé þeirra yrði leyst út á þennan hátt af ríkissjóði, en því hefir verið neitað með öllu af ríkisstj. fyrr og síðar. Þó þetta fé sé undanskilið í frv., er mjög slæm aðstaða að láta ekki það sama yfir alla ganga, því hér er mjög lítill munur á, nema að sumir hluthafarnir eru innlendir en aðrir erlendir, og svipað gildir fyrir póstfé dönsku stjórnarinnar, sem gert var að tryggingarfé fyrir Útvegsbankann. Ekki sízt þegar ekki verður um það deilt, að féð var tapað hvort sem var.

Það var vitanlega réttast, eins og við Alþýðuflokksmenn héldum fram á sínum tíma, að gera Íslandsbanka hreint upp og sjá greinilega, hvernig hann stóð, en að það var ekki gert, var eingöngu af völdum Sjálfstfl., og situr því illa á þeim að koma fram með svona málaleitun nú. — Vil ég svo enda ræðu mína með því að skora á hv. þm. Vestm. að vera framvegis örari á fé til sjávarútvegsins en til hluthafa í Útvegsbankanum.