19.11.1934
Neðri deild: 40. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í C-deild Alþingistíðinda. (4544)

131. mál, kaup á hlutabréfum í Útvegsbanka Íslands

Jakob Möller [óyfirl.]:

Það má segja, að það eru ómerk ómagaorð, þar sem eru orð þessa yfirfífls d. (Forseti hringir), hv. 2. þm. Reykv. En ég get ekki látið vera að benda á og lýsa jafnframt heimsku og staðleysu, sem hv. þm. hélt fram, að töp sparifjáreigenda hafi stafað af röngum skýrslum, sem ég og hv. 2. þm. Rang. gáfum um bankann. En ég býst við, að allir viti, að þær skýrslur, sem ég og hv. 2. þm. Rang. gáfum, voru ekki gerðar fyrr en búið var að loka Íslandsbanka. En þetta er ekki nema eftir öðru hjá hv. 2. þm. Reykv., sem í hvert skipti, sem hann talar um þetta mál, lýsir sig yfirheimskingja og fífl (Forseti hringir). Hitt ætti þessi hv. þm. að vita, að þegar hann hefir minnzt á störf nefndarinnar og starf mitt sem eftirlitsmanns, hefir hann auglýst sig sem fífl, svo landfrægt er orðið, fyrir hvernig hann hefir blandað saman starfi eftirlitsmanns með bönkum og sparisjóðum og starfi venjulegra endurskoðenda. Á því gerir þetta fífl engan mun.

Það, sem hv. þm. hefir gert, er að féfletta íslenzka sjómenn. Og það fer heldur vel á því, að þessi hv. þm. fari að senda hnútur til hv. þm. Vestm., þess þm., sem bezt hefir staðið í ístaðinu fyrir sjávarútveginn, því að það vita allir, að enginn hefir féflett íslenzka sjómenn svipað því sem hv. 2. þm. Reykv. Og nú hefir hann gerzt svo ófyrirleitinn og fífldjarfur, að jafnframt því, sem hann vill skorast undan að greiða réttan skatt í ríkissjóð af þessu fé, sem hann nær með því að féfletta íslenzka sjómenn, þá kemur hann því til leiðar hér á þingi, að breytt hefir verið skattal. beinlínis til þess að lækka skattinn af þessum hans illa fengna arði, sem hann tekur af fátækum erfiðismönnum. Þetta er sannanlegt og skal verða betur upplýst síðar.