19.11.1934
Neðri deild: 40. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í C-deild Alþingistíðinda. (4546)

131. mál, kaup á hlutabréfum í Útvegsbanka Íslands

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Ég hefi ekki miklu að svara í sambandi við þetta mál. Ég get ekki séð, að ríkið hafi skyldu til að kaupa þessi hlutabréf, þó að það hafi tekið ábyrgð á innstæðufé í Útvegsbankanum eins og í Landsbankanum. Það er ekkert samband á milli þess, og því get ég ekki fallizt á það, þótt einhverjir hafi skotið sér hjá að leggja fé í Útvegsbankann, þá leggi þessi vanrækslusynd þeirra neinar skyldur á ríkissjóð í þessu efni.

Ég vil líka benda á það í sambandi við þetta frv., að ef það yrði samþ., þá verður ríkissjóður, auk þess sem hann yrði að kaupa þessi 1,6 eða 1,8 millj. kr. hlutabréf, líka að taka afleiðingunum af því að kaupa líka hlutabréf þeirra útlendu aðilja, en þau munu vera um 1,3 millj. kr. Og af því að þessi bréf eru lítils virði, þá væru ríkissjóði hér lögð á herðar 3 millj. kr. útgjöld án þess að nokkuð væri í aðra hönd, og ég álít ekki rétt að leggja þá byrði á ríkissjóð ofan á þann þunga, sem hann þegar hefir orðið fyrir í sambandi við þetta mál.

Hv. þm. segir, að engin trygging sé fyrir því, að útlendingar féllu frá kröfum sínum um sérstök hlunnindi í þessu sambandi. Mér er ekki kunnugt um, hvaða kröfur þetta eru. Og eftir þeim upplýsingum, sem ég hefi nú fengið, síðan umr. hófust um þetta mál, þá hefir aldrei verið gengið út frá því, að þeim kröfum yrði sinnt, og það verður aldrei, af því að það liggur ljóst fyrir, að þeir hafa lagt það fé fram sem almennt hlutafé. Það er því engin ástæða til að kaupa bréf þeirra innlendu hluthafa, að ekki verði komizt hjá kröfum erlendra aðilja. Ef þeir krefðust einhvers, þá væri ástæða til að tala um þetta, en af því að ekkert hefir verið minnzt á slíkt, eftir því sem mér hefir síðar verið sagt, þá getur það ekki verið ástæða fyrir þessu.

Hv. þm. kom hér inn á frv. um skuldaskilasjóð, sem er ekki hér til umr. Ég skal ekki tala mikið um það frv. Hann sagði, að ég hefði kallað það frv. skrípaleik. Þetta er útúrsnúningur. Ég sagði, að framkoma ýmissa hv. þm. við málin og tekjuöflun til þeirra hluta, sem þar væri farið fram á, það væri skrípaleikur. Annars fer ég ekki lengra út í það mál, til þess að gefa ekki tilefni til umr. um það nú, þar sem það liggur ekki fyrir.