19.11.1934
Neðri deild: 40. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í C-deild Alþingistíðinda. (4549)

131. mál, kaup á hlutabréfum í Útvegsbanka Íslands

Jakob Möller [óyfirl.]:

Hv. 2. þm. Reykv. hefir alveg tekið af mér ómakið, því að með þessari síðustu ræðu sinni hefir hann enn sannað það, hvert flón hann er, þegar hann er að gaspra hér um það, sem hann hefir ekkert vit á, og afsannar það í öðru orðinu, sem hann segir í hinu.

Hann segir, að ef innstæðueigendur hafi tapað, þá sé það vegna þeirrar röngu skýrslu, sem ég hafi gefið. Nú játar hann, að ef þessir menn hefðu ekki lagt innstæðufé sitt í hlutafé Útvegsbankans, hefðu þeir átt að fá það, sem í þeirra hlut hefði komið, við opinber skipti í Íslandsbanka. Nú segir hann, að ef þeir hafi tapað sinni innstæðu á því að eiga hana sem hlutafé, þá sé það mér að kenna. M. ö. o., það hefði verið hagstæðara fyrir Íslandsbanka, að hann hefði verið gerður upp, og þá hefðu líka, eftir því sem hann segir, innstæðueigendur fengið allt sitt, en af því að þeir hafi byggt á mínum röngu skýrslum, hafi þeir tapað. Ég bið hv. þm. hvern fyrir sig að meta þá hugsun og það samræmi, sem er í þessum orðum hans. Fífl hefir hann áður verið, og fífl er hann enn. (Forseti hringir). (HV: Ég vil spyrja bankaeftirlitsmanninn: Hverju töpuðu þeir, sem ekki keyptu hlutabréfin?). Það var hv. 2. þm. Reykv. og hans flokkur hér á þingi, sem með samtökum við annan flokk, sem skapaði meiri hluta þings, úrskurðuðu, að þeir skyldu tapa öllu sínu. Þeir höfðu alltaf lagt alla stund á það að eyðileggja Íslandsbanka, þangað til honum var lokað, og á eftir, að þeir innstæðueigendur, sem ekki lögðu sitt innstæðufé í Útvegsbankann, að þeir töpuðu. (HV: Ætli þetta sé nú rétt?). Hvaða heimska er þetta? (HV: Hverju töpuðu þeir sparifjáreigendur, sem ekki lögðu framhlutafé?). Hann gleymir, að það skilyrði var sett fyrir endurreisn bankans, að innstæðueigendur legðu fram helming innstæðufjárins sem hlutafé. (HV: Þetta er sama hringavitleysan). En þeir töpuðu engu, af því að þeir flutu á því, að mikill meiri hl. lagði fram innieign sína. Að menn hafi glæpzt á að leggja fé inn í bankann vegna hinnar glæsilegu skýrslu, sem hv. þm. segir, að við Pétur Magnússon hefðum gefið um framtíðarhorfur bankans, er eins og annað hreinasta vitleysa hjá þessum þm.