17.11.1934
Neðri deild: 39. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í C-deild Alþingistíðinda. (4569)

134. mál, bygging og ábúð á jörðum, sem eru almannaeign

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Það gleður mig, að hv. 7. landsk., sem að ýmsu leyti er ósamþykkur stefnu þessa frv., álítur þó rétt að vísa því til n. — Þetta sérstaka atriði í 10. gr. frv., sem virðist aðallega valda ágreiningi, um að hinum árlegu afgjöldum af jörðum ríkisins, er byggðar verða samkv. þessum lögum, skuli varið til þess að kaupa jarðir, sem ríkinu bjóðast — það atriði, hvort hætta eigi að selja jarðir þess opinbera, liggur fyrir hv. þd. í öðru lagafrv., sem ég og hv. 2. þm. Reykv. erum flm. að. Þegar það frv. verður hér til umr., geri ég ráð fyrir, að við fáum tækifæri til að bítast um stefnumun okkar í þessum málum, ég og hv. 2. þm. Reykv. og þeir, sem okkur fylgja, annarsvegar og hv. 7. landsk. og 6. þm. Reykv. hinsvegar. En til þess að lengja ekki umr., þar sem svo mörg mál eru á dagskrá, þá leiði ég slíkar deilur hjá mér í þetta sinn.