18.10.1934
Neðri deild: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í C-deild Alþingistíðinda. (4578)

70. mál, strandferðir

Flm. (Gísli Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég verð að líta svo á, að þær mótbárur, sem hér hafa komið fram frá hv. þm. Snæf., geti verið nokkuð vafasamar. Fyrst og fremst hefi ég fulla ástæðu til að ætla, að ástæða væri til að athuga rækilega í n. þau ákvæði, sem eru í samningum viðvíkjandi þessu máli, og var vitanlega sjálfsagt að gera það á þinginu í fyrra, ef hv. þm. hefði þá ekki orðið svo brátt um að drepa málið. Í öðru lagi verð ég að líta svo á, að jafnvel þó að í milliríkjasamningum kunni að vera einhver ákvæði, sem skilja mætti þannig, að um gagnkvæman rétt til strandferða væri að ræða, þá virðist mér ákaflega hæpið, að þau ákvæði geti náð til þeirrar leiðar, sem í frv. er gert ráð fyrir að fara, sem er sú leið, að ríkið taki einkarétt til strandferða. Vitanlega getur enginn bannað íslenzku þjóðinni að taka einkarétt til slíks atvinnurekstrar, fremur en að hafa einkasölu á ýmsum vörutegundum. Ákvæði frv. eru ekki á þá leið, að gera greinarmun á milli innlends og erlends atvinnurekstrar, heldur milli atvinnurekstrar, sem ríkið hefir, annarsvegar og atvinnurekstrar einstaklinga. Þetta er vitanlega allt annað með lagaákvæði, þó að það í framkvæmd kunni að vera svipað, sem þó er ekki alveg víst, að það þyrfti að vera. Ég vil í þessu sambandi geta þess, að ég sé það af umr. í fyrra, að einn flokksmaður hv. þm. Snæf., sem þá var ráðh., hefir lítið á þetta atriði nokkuð svipað og ég, þó að hann fylgdi þeim öðrum flokksbræðrum sínum í að fella frv.

Ég ætla svo ekki að lengja umr. meira að þessu sinni, en vil geta þess, sem ég gleymdi að geta í framsöguræðunni, að við flm. höfum bætt við í frv. einni gr., þar sem tekið er fram, að ákvæði l. nái ekki til fiskiskipa og báta. Það var í fyrra réttilega bent á, að það gæti valdið óþægindum — sem óþarfi er að koma í l. —, ef þessar undantekningar væru ekki gerðar.

Ég tel sjálfsagt, að frv. verði vísað til n., að lokinni umr., og þá vitanlega samgmn., og til 2. umr.