18.10.1934
Neðri deild: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í C-deild Alþingistíðinda. (4586)

70. mál, strandferðir

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég vil, út af þeirri þungu ásökun, sem borin er á Sjálfstfl. í grg. þessa frv., af því að hann greiddi atkv. á móti því, að þetta mál gengi til n., taka fram þá ástæðu, sem lá til grundvallar fyrir því. Við, sem töluðum í þessu máli af hálfu Sjálfstfl., höfðum ýmislegt við frv. að athuga, og þar á meðal eitt atriði, sem hv. 1. flm. þessa máls sagði, að bætt væri úr með ákvæðinu í 6. gr., þar sem tekið er fram, að l. eigi ekki að ná til fiskiskipa eða báta. Í frv. í fyrra var þetta svo, að öll skip og bátar, sem ekki sigldu með ríkisstyrk, skyldu komast undir l. Ég benti þá á, að allt það fólk, sem ferðast milli Akraness og Reykjavíkur — en fólksflutningur þar á milli er mjög mikill og eykst stöðugt —, átti að skattleggja með því að leggja 20% á fargjaldið á þessari leið. Þetta er ákaflega ósanngjarnt, að leggja sérstaklega skatt á þau flutningatæki, sem engan styrk hafa úr ríkissjóði, en halda uppi ferðum til hagræðis fyrir fjölda marga menn. Hv. 1. flm. segir, að bætt hafi verið úr þessu með því að bæta við 6. gr. Mér skilst, eftir orðalaginu, að þetta eigi að ná til fiskiskipa og fiskibáta, en leggi maður þann skilning í þetta, þá er samt engu bættara, því að t. d. sá bátur, sem heldur uppi ferðum milli Akraness og Reykjavíkur og annast allan þann mikla fólksflutning, sem þar er á milli, fæst alls ekki við fiskiveiðar, og er þess vegna engin bót ráðin með þessu ákvæði frv. fyrir hann. Úr þessu mætti bæta með því að orða þetta á þá leið, að öll skip og bátar, sem annast fólksflutning hér við land, skuli undanþegin skatti.

Annað atriði í frv. í fyrra var þannig, að með því var beinlínis verið að vinna á móti Eimskipafélagi Íslands. Sá skilningur byggðist á því atriði 2. gr. — sem nú er óbreytt frá því í fyrra — að á meðan ríkið hefir ekki nægan skipastól til að annast fólksflutninga hér við land, þá eigi þessi skattur að greiðast, með þeim undantekningum, sem í frv. eru. Það virtist gefið í skyn með þessu, að að því bæri að keppa, að ríkið tæki í sínar hendur allan fólksflutning við strendur landsins, og þar með fara í samkeppni við Eimskipafélag Íslands og taka af því allan fólksflutning, sem vitanlega hefir verið undirstaðan til þess, að það gæti annazt vöruflutninga á afskekktari staði landsins á tiltölulega ódýran hátt. Þetta mátti líta svo á, að verið væri að reiða til höggs við Eimskipafélag Íslands.

Það var þegar af þessum tveimur ástæðum, að Sjálfstæðisfl. hafði mikið við frv. að athuga, en það, sem reið baggamuninn, voru þó ekki þessi atriði, heldur yfirlýsing formanns utanrmn. um það, að hér væri um að ræða brot á milliríkjasamningum. Form. utanrmn., hv. þm. Mýr., færði full rök fyrir því, að þessi staðhæfing um brot á milliríkjasamningunum væri rétt. Hann benti á, að hér væri um gagnkvæma samninga að ræða, og nefndi í því sambandi það atvik, að íslenzku skipi hefði verið neitað um að flytja farþega milli hafna við Noregsstrendur og hefði verið kært yfir því til utanríkisráðuneytisins norska, sem síðan hefði beðið afsökunar fyrir hönd Norðmanna og lofað, að þetta skyldi ekki koma fyrir aftur.

Þar sem í frv. var um augljóst brot á milliríkjasamningum að ræða samkv. áliti form. utanrmn. og margra annara, taldi Sjálfstfl. það skyldu sína að stöðva málið og innti því af hendi þetta sjálfsagða hlutverk. Hefi ég gert fulla grein fyrir því, að því fer mjög fjarri, að Sjálfstfl. sé ámælisverður fyrir afskipti sín af málinu á síðasta þingi.