18.10.1934
Neðri deild: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í C-deild Alþingistíðinda. (4589)

70. mál, strandferðir

Thor Thors:

Báðir hv. flm. þessa frv. hafa látið það koma fram í ræðum sínum, að þeim hafi verið kunnugt um andstöðu síðasta þings gegn frv. og að talið var, að það bryti í bága við milliríkjasamninga. Samt bera þeir frv. fram og segja, að ef vafi leiki á um málið, sé rétt, að Alþingi taki það til meðferðar. En því hafa þeir ekki sjálfir rannsakað málið og reynt að gera sér ljóst, hvort þeir væru að gera tilraun til að brjóta milliríkjasamningu með flutningi frv.? Það hefði verið þeim miklu sæmra en að koma með málið hingað til þess að „tefja dýrmætan tíma þingsins“, eins og Nýja dagbl. orðar það. Um þjóðræknina vil ég segja hv. þm. N.-Þ. það, að ég tel það fyllstu þjóðrækni að standa við gerða samninga við aðrar þjóðir. Hinn minnsti vafi á því, hvort Alþingi vildi standa við gerða milliríkjasamninga, yrði eigi þjóðinni til vegs, heldur til að setja á hana skrælingjastimpil.