18.10.1934
Neðri deild: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í C-deild Alþingistíðinda. (4601)

70. mál, strandferðir

Bjarni Ásgeirsson:

Ég vil láta hv. þm. vita, að mér sýnist ástæðulaust að vera að vitna í mig sem biblíu í þessu máli sérstaklega — nema þeir vildu þá gera það í fleiru. En sem form. landbn. og frsm. þess máls, sem dregið hefir verið inn í þessar umr., þó að það sé með öllu óskylt því máli, sem á dagskrá er, vil ég gefa þær upplýsingar, að n. leit svo á, að full ástæða hefði verið til þess, að hv. þm. N.-Þ. skildi lögin um frystihús svo sem hann gerði. En ef rökst dagskráin verður samþ., er slegið föstum skilningi þingsins á þessu máli. Hv. þm. G.-K. veit vel, að mörg mál má skilja á tvo vegu, en ef löggjafinn sjálfur slær því föstu í eitt skipti fyrir öll, hvernig skilningur hann ætlast til að lagður sé í lögin, þá er málið útkljáð. Ef dagskráin hinsvegar verður felld, þá er ástæða til að orða lögin á annan hátt.

Út af deilunni um það, hvort frv. það, sem hér er á dagskrá, fer í bága við gildandi milliríkjasamninga, skal ég geta þess, að ég aflaði mér gagna um það mál í fyrra og komst að þeirri niðurstöðu, að það væri næstum ótvírætt, að frv. færi í bága við samningana. Hinsvegar tel ég mig ekkert „autoritet“ í þessu máli og álít því rétt, að fleiri athugi málið og skeri úr, hvort ég hafi haft rétt fyrir mér. Ég er, eins, og ég sagði áðan, engin biblía og kæri mig ekkert um tilvitnarnir í mína skoðun sem óyggjandi sannleika.