18.10.1934
Neðri deild: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í C-deild Alþingistíðinda. (4605)

70. mál, strandferðir

Jóhann Jósefsson:

Ég verð að segja, að ég man ekki, hvaða till. það eru, sem eru á þskj. 134. Mér finnst hæstv. forseti ekki nærri nógu þakklátur hv. þdm., og þá sérstaklega hv. þm. N.-Þ., sem hefir verið hvað frekastur ð kveðja sér hljóðs hér í deildinni. Hv. þm. Mýr. var að upplýsa, að hann væri engin biblía, sem hv. þdm. gætu vitnað í. (BÁ: Þess virtist líka full þörf). Það er ekki furða, þó hv. þm. fyndist hann þurfa að lýsa því yfir. — Ég sé ekki, hvort frv. muni koma verulega í bága við utanríkissamninga, en það er náttúrlega svo stórt atriði, að það þarf að athugast rækilega. En hv. þm. Mýr. var búinn að lýsa því yfir, að frv. þetta fari í bága við milliríkjasamninga, en ætlar nú á lipran hátt að smeygja sér út úr því, eftir því sem hægt er, svo málið fáist til nefndar. Ég sé satt að segja ekki, hvort það kemur erlendum ríkjum nokkuð við, hvort við skattleggjum þessa flutninga eða ekki, en ég tel mjög hæpið, að þjóðinni sé gerður nokkur greiði með því. Að hér sé um sérstakt sjálfstæðismál að ræða, er fullyrðing út í loftið, sem ekki hefir við neitt að styðjast. Eða finnst hv. flm. strandferðirnar vera í svo góðu lagi, að ástæða sé til að banna öllum erlendu skipun um að flytja fólk hafna milli, og við vera færir um að annast þær svo vel sé? Nei, samgöngurnar eru ekki í því lagi enn, og afleiðingin yrði því aðeins sú, ef þannig ætti að bægja fólkinu frá að nota önnur skip en þau íslenzku, að slíkt mundi valda því miklum óþægindum, og fólkið ferðaðist með erlendu skipunum eins og áður, en yrði að greiða hærri fargjöld, því skipin tækju skattinn með hækkuðum fargjöldum. Eða hvað finnst hv. þdm. um þá stefnu hæstv. stj. og hv. flm., að vinna að hvorutveggja í senn, að skera niður styrkinn til Eimskipafélags Íslands, einoka flutninga hafna á milli og hækka fargjöldin. Mér finnst því vera nægar ástæður, sem gera frv. óaðgengilegt, þó ekki bætist við, að brotin sé stjórnarskrá allra ríkja, þar sem eru milliríkjasamningarnir, sem hv. form. utanrmn. hefir fullyrt, að gert væri, þó hann sé að vísu engin biblía. Ég verð því að segja, að mér finnst þetta alls ekkert nytsemdarmál fyrir þjóðina. Það eina, sem hv. flm. myndu því áorka, ef frv. yrði samþ., er að baka fólkinu mikil óþægindi og aukin útgjöld og færa samgöngur á sjónum nær því, sem þær voru á miðöldunum. Það er svo sem ekki að furða, þó þessir hv. flm., sem að stj. standa, telji, að við getum látið okkur nægja járnbraut smáhafnanna og Esjuna. Það hefir ekki verið búið svo illa að strandferðunum undanfarin ár. Hv. flm. þurfa ekki að halda, að þeir með þessu komi höggi á Sjálfstfl. eða einstaka menn úr honum. Það verður að koma strandferðunum í það horf, að þær fullnægi flutningsþörfinni, áður en við förum að skattleggja fargjöldlin eða amast við, að þær séu bættar, jafnvel þó það sé gert af útlendingum. Þá er eitt atriði enn, sem hv. þm. Snæf. dró fram og er hreint ekki svo lítils virði í sambandi við hinn nýja skipastól, sem er að rísa upp. Því þau þægindi, sem fólk gæti haft af að nota þau skip hafna milli, eru útilokuð, því þau mundu falla undir ákvæði þessa frv. — Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv., því það voru einkum þessar stöðugu árásir á Sjálfstfl., sem komu mér til að standa upp. Og vildi ég þá sýna fram á, að frv. er jafnóhafandi, hvort sem það kemur í bága við erlenda samninga eða ekki. Það er ekkert atriði, hvort frv. fer til nefndar eða eigi, því það er sama, hvar það sofnar.