17.11.1934
Neðri deild: 39. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í C-deild Alþingistíðinda. (4636)

143. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Fim. (Bergur Jónsson) [óyfirl.]:

Eins og ég gat um í framsöguræðu minni fyrir frv. til l. um útgerðarsamvinnufélög, er þetta frv., sem hér liggur fyrir, komið fram í sambandi við það frv., og er ætlazt til, að með því verði útgerðarsamvinnufélögunum tryggt nægilegt fé til starfa. Í l. gr. frv. er heimild Fiskveiðasjóðs til að gefa út handhafavaxtabréf aukin úr 1½ millj. kr. upp í 3 millj. kr. Og til þess að þetta verði ekki dautt ákvæði, er fjmrh. gefin heimild til að verja nokkrum hluta af fé opinberra stofnana og sjóða, svo sem Bjargráðasjóðs, sjóðs Brunabótafélags Íslands og sjóðs Slysatryggingar ríkisins, til kaupa á handhafavaxtabréfum Fiskveiðasjóðs. Hin ákvæði frv. miða að því að létta útgerðarsamvinnufélögum skipakaup, þar sem þeim er veittur forgangsréttur að lánum úr sjóðnum í þessu skyni, og sjóðnum leyft að lána þeim allt að 4/5 af kaupverði hvers skips, gegn 1. veðrétti í skipunum, enda séu lánin tryggð með ábyrgð hlutaðeigandi bæjar- eða hreppsfélags. Og verði frv. um útgerðarsamvinnufélög að l., ætti engin hætta að vera fyrir bæjar- og hreppsfélögin að taka á sig þessa ábyrgð, og fengist hún því sennilega í öllum tilfellum. Hv. þm. Vestm., sem er aðalflm. að öðru frv. um Fiskveiðasjóð, áleit, að þetta frv. bryti í bága við hans frv. Ég tel það mjög vafasamt, og þar sem bæði þessi frv. fara nú í sömu n., sé ég ekki ástæðu til þess að fara að karpa um þetta frv. nú, frekar en hitt, sem vísað var til sjútvn. í dag. Mér finnst það vel fær leið að auka leyfið til útgáfu handhafavaxtabréfa, þegar um leið er bent á handbært fé til að kaupa þessi bréf inn. Og það er ekki svo, að með þessu sé sú breyt. gerð á Fiskveiðasjóði, að aðeins útgerðarsamvinnufélög fái lán úr honum. — Ég held, að það sé samkomulag milli allra hv. þm. um að efla Fiskveiðasjóð svo, að hann verði aðallánsstofnunin fyrir smærri útveginn, hvort sem hann er nú rekinn með samvinnusniði eða í einstaklingsrekstri. — Hv. þm. Vestm. gat þess í sambandi við sitt frv., að Fiskveiðasjóði hefði áður verið bent á þá leið, sem ég vil láta fara til þess að efla hann, og ekkert verið að gert. En nú er öðru máli að gegna. Ef frv. okkar verður samþ., er ráðh. skylt að nota nokkurn hlutu af tilteknu fé til kaupa á handhafavaxtabréfum sjóðsins árlega. Hvað mikið er að því gert, fer auðvitað eftir því, hvernig ráðh. beitir þessu ákvæði. — Ég get ekki séð, að þessi frv. okkar reki sig á, þar sem þau fara í sömu n. bæði, og aðalflm. beggja frv. eiga sæti í þeirri n.