17.11.1934
Neðri deild: 39. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í C-deild Alþingistíðinda. (4637)

143. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Það var ekki til þess að taka upp neitt karp um þetta mál, að ég kvaddi mér hljóðs. Ég vildi benda á það, að allmikill munur er á till. þeim, sem annarsvegar eru undirbúnar af milliþingan. í sjávarútvegsmálum, og hinsvegar í frv. því, sem hv. þm. Barð. var að mæla fyrir og borið er fram af þremur framsóknarmönnum. Ég skal ekki taka það af, að samkomulag geti orðið um að efla Fiskveiðasjóð með útgáfu handhafavaxtabréfa. Hv. flm. benti til þess, að tryggilegar væri gengið frá ákvæðum frv. í þessu efni en gert er í l. frá 1930. Ég vil þó ekki láta hjá líða að minna á það, að í l. frá 1930 var ríkissjóði gert að skyldu að leggja fram1 millj. króna til Fiskveiðasjóðs, en það hefir ekki verið framkvæmt, heldur hefir sjóðurinn sjálfur verið látinn taka lán. Þetta verður að athuga í sjútvn. — Þá er það atriði, að samkv. frv. hv. þm. Barð. og meðflm. hans má veita lán allt að helmingi kaupverðs skipanna, og ef um samvinnufélög er að ræða, má lána allt að 4/5 hlutum kaupverðs. Hér er útgerðarsamvinnufélögunum allt of mikið mismunað. Það getur verið fullt eins tryggilegt að lána einstaklingum eða öðrum samtökum sjómanna og samvinnufél. Og það er ekkert réttlæti að gera svo upp á milli manna sem gert er í frv., og því síður, sem samvinnufélögunum er líka veittur forgangsréttur að lánunum. — Ég drap á það í ræðu minni um frv. það til breyt. á l. um Fiskveiðasjóð, sem mþn. undirbjó, að fleiri en við, sem erum flm. þess frv., vildu koma því svo fyrir, að ríkið hætti að taka á sig ábyrgðir fyrir hvert útgerðarsamvinnufélagið á fætur öðru. Það er ekki undarlegt, þó að framsóknarmenn séu farnir að sjá, hvað þetta er óheppilegt fyrirkomulag, enda vitað, að ríkissjóður hefir þegar fengið skell af þessum ábyrgðum. En hér er opnuð leið til annara hættulegra ábyrgða. Í 3. gr. frv. er mælt svo fyrir, að lánin skuli veitt gegn 1. veðrétti í skipum útgerðarsamvinnufélaga, sem stofnuð eru og rekin samkv. sérstökum l. um slík félög, og megi nema allt að 4/5 virðingarverðs, enda gangi þá veðréttur sjóðsins fyrir öllum tryggingum í skipunum, öðrum en lögveði. Ennfremur er krafizt ábyrgðar hlutaðeigandi bæjar- eða hreppsfélags. Mér liggur við að segja, að hér sé farið úr öskunni í eldinn. Það, að fara að draga bæjar- og hreppsfélög inn í þessi mál, er eins óviðkunnanleg og hættuleg braut og sú, að draga ríkissjóð beint inn í þessar ábyrgðir. Í þessu efni virðist mér frv. ekki gera nein bragarbót. Það er engu betra að leggja þetta á herðar bæjar- og hreppsfélaga, sem, eins og allir vita, eru meira og minna á hausnum, nema ef vera skyldi Reykjavík, en að ríkissjóður sjálfur hafi þessar ábyrgðir. En að mínum dómi er hvorttveggja rangt. Nú er það svo, að þessi lán eiga að veitast af stofnun, sem er byggð upp eins og bankastofnun og á því að starfa eftir bankareglum og miða veitingu lána og fjárhæðir við þá tryggingu, sem fyrir liggur, og ekkert annað. Og sú stofnun, sem bezt skilyrði hefir til að leysa þetta mál, er Fiskveiðasjóður, ef löggjöfin gerir hann færan um að halda hlutverki sínu áfram. Hv. þm. Barð. er mér sammála um það, að efla þurfi sjóðinn að mun. En ég vildi nú strax við 1. umr. minnast á þá helztu agnúa, sem mér finnst vera á frv. því, er fyrir liggur. Einkum finnst mér þörf á því að tryggja fjárhagshliðina betur en gert er í þessu frv. Ekkert er ákveðið um það, hvað mikið fjmrh. á að láta kaupa af bréfunum. Hér eru nefndar út í bláinn nokkrar stofnanir, Bjargráðasjóður, Slysatryggingarsjóður o. fl., og á að verja nokkrum hluta af fé þeirra til kaupa á handhafavaxtabréfum Fiskveiðasjóðs, en fjmrh. er ætlað að ákveða upphæðina. Við þessu væri ekkert að segja, ef nefnd væri ákveðin upphæð og vitað væri, að tilteknir sjóðir gætu leyst þetta af hendi og stj. væri skyld að framkvæma þetta. Hér þarf mikla umbót á, til þess að hægt sé að skoða frv. þetta sem venjulegar umbætur á Fiskveiðasjóðnum. Það er með öllu móti óviðunandi, að þeir menn, sem ekki vilja vera í samvinnufélagi, skuli ekki fá lánsupphæð nema allt að ½ virðingarverðs skipa sinna, en þeir, sem í samvinnufélögum eru, geta á sama tíma fengið 4/5 hluta virðingarverðs út á sín skip. Ennfremur er óþolandi þetta ákvæði um forgangsrétt samvinnufélaga að lánunum. Setjum svo, að efnilegir menn í einhverju plássi væru fyrir löngu búnir að biðja um lán, en svo væri stofnað samvinnufélag, þá er þeim orðalaust skotið aftur fyrir þetta nýja félag. — Ennfremur inniheldur þetta frv. atriði, sem orðið hefir mikið deilumál á undanförnum þingum, en það er ákvæðið um, að tryggingin á skipunum skuli ganga fyrir öllum veðum nema lögveðum. Það hefir ekki blásið byrlega fyrir lagaákvæðum hingað til, sem nema í burt sjóveð í skipum fyrir skipshöfnina. Á þingi 1930 var gerð tilraun til þess að koma í veg fyrir, að lántakendur yrðu fyrir of miklum óþægindum af þessu, með því að ákveða, að 1/4% af lánsupphæðinni rynni í hættutryggingarsjóð. Það vakti fyrir flm., hv. þm. V.-Ísf., að með þessu móti gæti myndazt tryggingarsjóður við hliðina á Fiskveiðasjóði, svo að ekki þyrfti að krefjast þess, að sjóveðið væri afnumið. En sá sjóður hefir ekki fengið mikið fé og er sama og einskis virði. Og það mun verða svo, að sjóveð hvíli áfram á bátum og skipum, enda er það tæpast rétt gert að meina skipshöfnum öruggan aðgang að kaupi sínu.