04.12.1934
Neðri deild: 50. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í C-deild Alþingistíðinda. (4693)

163. mál, fasteignaveðslán landbúnaðarins

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég viðurkenni, að í þessu frv. sé um nokkra endurbót að ræða, sérstaklega eftir að hv. landbn. hefir tekið tillit til frv. okkar Bændaflokksmanna og tekið upp úr því ákvæði í 3. kafla þessa frv. Það, sem ég hefi við frv. að athuga í fljótu bragði, er, að fellt er niður ákvæðið um bústofnslánadeildina. Ég álít, að það sé ekki rétt, þó að sú deild hafi minna verkefni eftir að farið var að nota kreppulánalöggjöfina. Það er enganveginn svo, að þessi deild hafi ekki þýðingu, og þó að hún hafi ekki komið til framkvæmda, þá álít ég samt, að hún eigi að vera, svo að það verði þá greiðara að hefja þessa starfsemi í framtíðinni. Ég er því óánægður yfir því, að þetta sé fellt niður, þó að það hafi ekki verið framkvæmt ennþá. Um hin ákvæðin í 1. kafla er það að segja, að þó að hv. landbn. álíti, að ekki verði neinn árangur af mínu frv., af því að þar er aðeins um heimild að ræða, þá má segja um þetta frv. hv. landbn., að það er byggt á heimild á heimild ofan. Ég hefi ekkert um það heyrt, hvort mögulegt er að nota heimildina. Ég gæti búizt við, að varasjóður veðdeildarinnar hefði það á sinni könnu, hvort mikið er dregið frá eða ekki. En ég tel nokkurn veginn víst, að mikið verði dregið frá. Það er ástæðulaust að hafa varasjóð, ef hann á ekki að vinna visst verk.

Um ákvæði 3. gr. er það að segja, að þar er aðeins um heimild að ræða handa landbúnaðarráðherra til þess að taka 5 millj. kr. lán. Það er því þarna um heimild að ræða eins og er í mínu frv. Ég veit ekki, hvort ástæða er til að halda, að ráðh. noti nokkurntíma þessa heimild; þó að hv. þm. Mýr. sé vongóður um, að það takist að konvertera láninu, þá veit ég ekki, hvort það tekst. Ég býst ekki við, að það verði svo glæsilegt, að það geti fært vexti niður í 5%. Þegar á að fara að nota þennan hluta vaxta viðlagasjóðs, sem á að vera varasjóður veðdeildarinnar, þá er ég hræddur um, að þurfi að nota meira en vaxtatillagið vegna sparisjóðsskuldanna. Það mun sýna sig, að það fer talsvert, ef færa á vexti niður í 5%, eða lækka þá um l½%, af 11/4 millj. kr. Ég veit ekki, hvernig á því stendur, að í grg. fyrir frv. eru veðdeildarlán Búnaðarbankans talin 1½ millj., en ég veit ekki til, að þau séu nema 11/4 millj. kr. Ræktunarsjóðslánin eru talin 5½ millj. kr., en ég veit ekki til, að þau séu nema 4,7 millj. kr. Ég býst við, að þetta sé misreikningur hjá n., en ekki það, að þessar tölur séu frá Búnaðarbankanum. Þar sem þessar tölur eru ekki réttar, þá er ástæða til að halda, að eitthvað hafi ruglazt með blönduðu lánin hjá sparisjóðunum. Það munar um 1 millj. á tveimur liðum. Ég er hræddur um, að það sé varhugavert hjá n. að binda bjargráðasjóð í verðbréfakaupum fyrir veðdeild Búnaðarbankans. Ég vil aðeins benda á þetta í þessu sambandi, en ég hefi ekki athugað, hve miklir möguleikar eru fyrir þessa stofnun að standa undir eftirgjöfum á vöxtum. Ég er hræddur um, að það takist aldrei fyrir bankann að reyta saman fé frá eigin starfsemi til þess að standast þessa vaxtalækkun. Það má vera, að n. hafi reiknað þetta út. En ég hefi ekki heyrt rök fyrir því, að hægt sé að koma á vaxtalækkun eins og n. gerir ráð fyrir. Út af Byggingar- og landnámssjóðslánunum skal ég taka það fram, að til þeirrar stofnunar var varið fé með það fyrir augum, að þau lán, sem hún veitti, væru við vægari kjörum en önnur landbúnaðarlán. Þeir menn, sem hafa tekið lán þar, standa undir öðrum skuldum. Þetta er því aukabyrði, sem menn hafa orðið að leggja á sig til þess að koma byggingum á jörðum sínum í viðunandi horf. Það er því ekki síður aðkallandi að fá vaxtalækkun, þó ekki sé um stórvægilegar upphæðir að ræða. En þar sem þessar skuldir hvíla á láum mönnum, þá er þetta þungur baggi, og myndi nema 70— 180 kr. á hvern einstakling. Þegar þessi lánskjör eru borin saman við lánskjör á þeim skuldum, sem ganga manna á milli, þá er búið að gera viðskiptaskuldunum hærra undir höfði, þar sem þær eru lækkaðar um 10%— 90%, og svo á að borga af þeim litla hluta, sem eftir er, 4%, en hin lánin hvíla áfram á þeim mönnum, sem hafa tekið þau. Það getur vel verið, úr því á að ganga þá braut, að lækka skuldaþungann á mönnum, en það liggur ekki fyrir, að það sé þægilegt að gera það, að þá hefði verið réttara að nota fé Búnaðarbankans til þess að koma þessum skuldum í viðunandi horf, en ekki að lækka vaxtagreiðslur þær, sem hvíla á mönnum. Búnaðarbankinn hlýtur fyrr eða síðar að verða fyrir töpum af stofnskuldum sínum, en til þess er varasjóður stofnunarinnar að standa undir þeim, ef til kemur. Það er ógætilegt að ganga svo langt að reyta þessa stofnun inn að skyrtunni til þess að koma á almennri vaxtalækkun. Það er sérstaklega óeðlilegt, þegar slík vaxtalækkun snertir ekki skuldir hjá lánstofnuninni sjálfri, heldur skuldir, sem stofnaðar eru við aðrar lánstofnanir, sem eru meir óviðkomandi stofnuninni en Byggingar- og landnámssjóður. Þær skuldir, sem ég á við, eru þær, sem stofnaðar eru í sparisjóðunum. Hv. frsm. talaði um, að þetta lán myndi hrökkva til, en annars á að taka fé úr Búnaðarbankanum til að jafna mismuninn, svo að vextir verði ekki nema 5%. Ég vil leggja áherzlu á það, að ef þetta er talið fært, þá sé getu Búnaðarbankans beint í þá átt, að lækka vexti á lánum Byggingar- og landnámssjóðs eða afskrifa skuldir, og að ríkisvaldið tæki á sig nauðsynlega vaxtalækkun, þar til opnaðist leið til sæmilegra kjara með lántöku erlendis. Ég hefi ekki trú á, að lán fáist með lægri vöxtum en 5%, og annað er að afgreiða málið í góðri von, en það er ekki raunveruleg lausn málsins.

Að lokum vil ég spyrja hv. frsm., hvort það sé í samráði við hæstv. landsstj., eða hvort hæstv. fjmrh. hefir fallizt á við taka við heimildinni í 3. kafla frv., svo að víst sé, að hún verði framkvæmd. Það var ekki álitið fært að taka við henni frá mér, en það er kannske fært að taka við henni frá öðrum. Mér skildist á hv. frsm., að það væri þýðingarlítið að samþ. frv. mitt, af því að heimildin myndi ekki verða notuð af ráðh. Hefir hann þá tryggingu fyrir því, að hans heimild verði notuð? Eða var vilyrði ráðh. bundið við vissa upphæð?

Ég mun fyrir 3. umr. verða búinn að afla mér betri gagna um það, að hve miklu leyti till. n. er framkvæmanleg, og hvort það er ekki svo, að hjá Búnaðarbankanum sé ekki fé fyrir hendi. Búnaðarbankinn hefir ekki aðrar tekjur en þær, sem honum eru fengnar í hendur, og þær tekjur, sem hann skapar sér með útlánastarfsemi sinni. Ef hann á að standa undir frekari útgjöldum en fært er, þá er það gagnslaust. Það er hart, ef 1 eða 2 þús. standa í vegi fyrir því, að hægt sé að reka ríkisbúskapinn. Ég get ekki skilið þá röksemdaleiðslu, að öllu verði siglt í strand, þó veittar séu 1 eða 2 þús. fram yfir það, sem stjórnin ætlast til.