21.11.1934
Sameinað þing: 11. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í D-deild Alþingistíðinda. (4697)

162. mál, ábyrgð á láni fyrir Hafnarfjarðarkaupstað

Flm. (Emil Jónsson):

Á síðastl. sumri leitaði bæjarsjóður Hafnarfjarðar fyrir sér um útvegun á láni, með það fyrir augum að greiða upp og safna á einn stað lausaskuldum, sem bæjarsjóður hafði stofnað til hingað og þangað með fremur óhagstæðum kjörum. Á sama tíma leitaði byggingarsjóður verkamanna fyrir sér um lán til verkamannabústaða, og fékk loforð um lán hjá ensku félagi, Pearl Assurance Co. Ltd., í London. Nú er, eins og hv. alþm. vita, heimild til þess samkv. l. um verkamannabústaði, að ríkið ábyrgist þessi lán, en þetta samat félag ætlaði einnig að veita bæjarsjóði lán, og vildi veita lánið einungis í einu lagi, og með ríkisábyrgð. Í áliti meiri hl. hv. fjvn., sem nú liggur fyrir, er mælt með þessari ábyrgð, og hygg ég, að ekki hafi verið mikill ágreiningur um það í n., eftir því sem ég bezt veit. Orsökin til þess, að Hafnarfjörður þarfnast nú þessa láns, er fyrst og fremst sú, að bæjarsjóður Hafnarfjarðar hefir, eins og bæjarsjóðir annara kaupstaða, orðið að vera lánsstofnun fyrir þau sveitarfélög, sem ekki hafa getað greitt með sínum þurfalingum, sem dvalið hafa þar. Þetta er sama sagan og alstaðar annarsstaðar, að þeir, sem raunverulega hafa átt að inna af höndum þessar greiðslur, hafa ekki getað það og orðið að safna skuldum. Innieign bæjarsjóðs Hafnarfjarðar nemur nokkuð á annað hundr. þús. kr. hjá öðrum sveitarfélögum. Þetta er ærin ástæða til þess, að ríkið hjálpi bæjarsjóði til þess að koma málunum í rétt horf. Enda hefir bæjarsjóðurinn aldrei áður leitað til ríkissjóðs um nokkra ábyrgð, mér vitanlega, eða a. m. k. ekki fengið. Aftur á móti munu flestir aðrir kaupstaðir hafa gengið lengra eða skemmra á þá braut. Að þetta er borið fram í þál.formi, kemur til af því, að byggingarsjóðurinn treysti því, að lánið yrði, samkv. gefnu loforði, veitt og byrjað á byggingunum. Liggur því meir á þessu en ella myndi, og er því borin fram till. til þál. þessu viðvíkjandi.

Ég vil geta þess, að efnislega er hér í raun og veru ekki um neina breyt. að ræða, aðra en þá, að bæjarsjóður verður nú aðili gagnvart lánardrottni, enda till. þess vegna fram borin.