23.11.1934
Sameinað þing: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í D-deild Alþingistíðinda. (4700)

162. mál, ábyrgð á láni fyrir Hafnarfjarðarkaupstað

Sigurður Kristjánsson:

Það er dálítið nýstárlegt, að Alþ. ætlar að fara að taka ábyrgð á láni, sem ekki er ætlað til neins sérstaks fyrirtækis. En ég geri ráð fyrir því, að þörfin sé svo mikil á þessu láni, að flestir hv. þm. séu þegar búnir að ákveða sig í því að vilja hjálpa í þessu tilfelli. En ég álít, að þegar eitt bæjarfélag hefir orðið fyrir því óláni að komast í svona erfiðar fjárhagsástæður og leitar til þingsins um hjálp, — ekki til þess að leggja í arðvænleg fyrirtæki, heldur til þess að brúa skuldafenið, borga gamlar lausaskuldir, sem eru háskalegar hverju bæjarfélagi —, þá sé gálauslegt, að ekki sé nefnt neitt í þá átt, að setja verði ríkinu tryggingar. Tryggingar þarna liggja ekki í neinu fyrirtæki, sem féð á að fara til. — Í fjárl. yfirstandandi árs er heimild fyrir ríkisstj. að ábyrgjast fyrir Vestmannaeyjakaupstað 100 þús. kr. lán, en þar stendur: „gegn fullri tryggingu“. Vil ég því leggja fram skrifl. brtt. um það, að áskildar séu fullar tryggingar fyrir ábyrgð þessari.